141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

landslénið .is.

421. mál
[18:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég skora á hæstv. ráðherra að þjóðnýta ISNIC því að þó svo að það geti talist of dýrt að gera það er mjög dýrt að missa þá þekkingu sem þar er, það er alveg ljóst. Mig langar að spyrja ráðherrann í fullri einlægni hvort hann telji að sú þekking og reynsla sem er innan veggja ISNIC — þar inni eru menn sem unnið hafa í slíkum málum frá árdögum netsins. Ég hef vann t.d. með þeim í eldgamla daga að verkefnum og fékk meira að segja það verkefni að gera vef fyrir ISNIC þegar það var enn þá í eigu ríkisins, sem sagt ekki einkavætt.

Nú er talað um að ekki sé vilji fyrir því að arðurinn af .is fari inn í einkafyrirtæki, það hlýtur þá að verða einhver arður af því ef það er tekið yfir í Póst- og fjarskiptastofnun. Var reiknað hvernig hagkvæmast væri að leysa málið til langs tíma þannig að það yrði ekki baggi á ríkinu heldur skrautfjöður? Mér sýnist hún reyndar verða ansi rytjuleg ef fara á þessa leið.