141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Aðeins í upphafi vil ég segja að mér finnst alltaf skrýtið að heyra þingmenn tala um valdapólitík og valdabrölt og að margir aðrir séu með einhverjar slíkar hugmyndir eða keyri sig áfram á slíkri starfsemi en stofna svo sjálfir nýja flokka til að komast til valda. Er það ekki valdabrölt í sinni skýrustu mynd þegar menn annaðhvort skipta um flokk eða stofna nýja til þess að komast til valda, til að fá völd? Svo er kannski enginn munur á stefnu þessara flokka og gömlu flokkanna. Hvað veit maður? (Gripið fram í.)

Það er hins vegar ánægjuleg frétt að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands hafa náð saman um einhvers konar skilning sem verður væntanlega til þess að lengja í samningum eða leysa þau vandamál sem blöstu við okkur varðandi þá hluti. Því ber að fagna. Það sem vantar í rauninni upp á er að hér sé ríkisstjórn sem er til í að vinna með aðilum vinnumarkaðarins, ríkisstjórn sem áttar sig á því sem þarf að gera. Hér þarf að fjölga störfum og byggja upp. Þessi ríkisstjórn er ekki að því. Aðilar vinnumarkaðarins hafa enn og aftur tekið af skarið og sýnt gott fordæmi sem verður vonandi til þess að ríkisstjórnin leggur sitt á vogarskálarnar.

Það birtist einnig frétt í morgun, ef ég man rétt, um átak varðandi menntun sem ríkisstjórnin var að skrifa undir. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni ef menn eru að fara í átak út af því. Þetta varðaði Norðvesturkjördæmi, minnir mig, og eitthvert hverfi í Reykjavík. Þetta er mjög áhugavert allt saman en við verðum líka að hafa í huga að þegar við ráðumst í slíkt átak þarf að vera atvinna fyrir fólkið þegar það er búið að mennta sig.

Frú forseti. Það er það sem þessi ríkisstjórn hefur algjörlega klikkað á.