141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins taka þátt í þessari umræðu vegna þess að það er laukrétt sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson segir, það er gríðarlega mikilvægt að halda dampi í þessu máli. Mjög misvísandi skilaboð koma frá ríkisstjórnarflokkunum í þessum efnum, hvort verið sé að setja málið í salt, eins og sumir hv. þingmenn Vinstri grænna segja, eða hægja á viðræðunum til að þær verði ekki í brennidepli í kosningabaráttunni, eins og sumir hv. þingmenn Samfylkingarinnar segja.

Hæstv. utanríkisráðherra heldur því fram að verið sé að hægja á málinu. Hæstv. atvinnuvegaráðherra segir að búið sé að pakka því inn fram yfir kosningar. Af ræðu sem hann flutti hér í gær má ekki draga aðra ályktun en að það sé sjálfstæð ákvörðun að loknum kosningum hvers flokks hvort haldið verður áfram eða ekki.

Hann sagði, með leyfi forseta:

„Það er svo í höndum hvers flokks um sig, hvort sem hann er í ríkisstjórn nú eða í stjórnarandstöðu, að kveða upp úr um það hvernig hann sér fyrir sér framhald málsins.“

Það er mjög margt á reiki um það hvernig stjórnmálaflokkar sjá fyrir sér framhald þessa máls. Ég held að af virðingu fyrir því ferli sem hér er farið af stað sé mjög mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir tali mjög skýrt um hvað þeir ætla að gera, hvernig þeir sjá framhaldið fyrir sér. Það er alveg ljóst af því sem við höfum séð í fréttum síðustu tvo daga af þessu máli að það er búið að taka stjórnarsáttmála Vinstri grænna og Samfylkingarinnar úr sambandi. Hann er ekki lengur í gildi vegna þess að þessi atburðarás var ekki hluti af þeim sáttmála. Þvert á móti. Sá sáttmáli gekk út á að ljúka þessu ferli, það færi af stað og héldi áfram og því yrði lokið með því að þjóðin greiddi atkvæði. Ekkert var um að ljúka því, pakka því inn, setja það í salt og taka síðan sjálfstæða ákvörðun um það eftir kosningar. Og það er áhyggjuefni.