141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

úthlutun aflamarks í ýsu á þessu fiskveiðiári.

[15:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli fara fram. Hún er mjög brýn og fyrir löngu tímabær. Ég þakka hv. málshefjanda Ásbirni Óttarssyni fyrir að hefja hana og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir hans viðbrögð.

Í morgun fengum við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson tölvubréf sem ég ætla að leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Við erum ánægð með að ýsuvandræðin verða rædd á Alþingi í dag. Vonandi tekst að fá svar frá ráðherra hvernig hann ætlar að bregðast við vandamálinu og fara að láta verkin tala. Við erum stopp með bátana, getum ekki róið þegar verðið er svona lágt, höfum leigt til okkar ýsu og látið bátana róa einn til tvo róðra í viku, svona rétt til að hafa vinnu fyrir beitningamennina. Þetta getur ekki gengið svona lengur, hangandi í landi, logn og blíða um allan sjó.“

Þetta er sá veruleiki sem blasir við útgerðum víða um landið, ekki síst smábátaútgerðum, línuútgerðum sem eiga ekki margra kosta völ við þær aðstæður sem eru núna á miðunum. Það sem við þurfum að átta okkur á er að aðstæður bátanna eru mjög misjafnar. Annars vegar eru þeir sem róa á grunnslóðina, minni bátarnir. Þeir hafa ekki mikla möguleika til að forðast ýsuna, alveg sama hvað menn reyna. Menn reyna að forðast ýsuna eins og þeir mögulega geta en geta það ekki og við sjáum hvernig tölurnar blasa við okkur.

Hins vegar eru þeir bátar sem geta farið dýpra og eru ekki í þeim vanda sem ég var að lýsa. Ég hef tekið dæmi af línubát sem ég þekki til þar sem ýsuhlutfallið á móti þorskinum er svona 90% en aftur á móti er hlutfallið innan við 2% á öðrum skipum sem geta róið dýpra. Þetta er vandinn í hnotskurn. Þetta er það vandamál sem við þurfum að takast á við og það sem ég held að standi upp úr er að það er algjör tortryggni af hálfu sjómanna og útvegsmanna við þessar aðstæður. Þeir upplifa ástandið á miðunum allt öðruvísi en vísindamennirnir okkar gera. Ég held þess vegna að það sé mjög brýnt að fara yfir þessi mál og ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði, en það þarf líka að fara í sérstaka mælingu á grunnslóðinni. Það þarf að fá niðurstöðu um breytta dreifingu á ýsugengdinni og við þurfum líka að efna til (Forseti hringir.) víðtæks samráðs milli sjómanna og vísindamanna um þessi mál. Þetta getur ekki staðið svona öllu lengur.