141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

stjórn fiskveiða.

447. mál
[18:02]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er eitt atriði sem ég náði ekki að fara yfir í ræðu minni áðan og ætla að fara örstutt yfir núna. Við höfum í þessari umræðu, og ég kom inn á það í ræðu minni, nánast verið að ræða um einn bát sem var stækkaður umfram 15 brúttótonn eftir að krókaaflaheimildirnar voru komnar á hann. Ástæður þess að sá aðili fór í þessar breytingar á bát sínum voru akkúrat þær sem komu fram í máli þeirra hv. þingmanna sem hafa mest talað hér í dag.

Ástæðan var sú að hann var að búa þannig um hnútana að bæði væri hugsað um öryggi mannskapsins og líka um gæði og meðferð á aflanum. Það var auðvitað það sem sá ágæti útgerðarmaður gerði þegar hann stækkaði bátinn. Hann gerði sér ekki einhverjar vonir um að komast yfir í aflamarkskerfi eða eitthvað því um líkt heldur einungis um að geta gert breytingar þannig að mannskapurinn hans byggi við meira öryggi, betri aðstöðu og líka að meðferð á hráefninu og aflanum yrði mun betri.

Mig langar aðeins að hnykkja á því sem hefur líka gerst. Við vorum að ræða hér á undan það sem snýr að þeim vandamálum sem eru á grunnslóðinni vegna veiðinnar á ýsunni þ.e. veiðin er ekki í samræmi við excelskjölin í Reykjavík. Það er þannig að þeir bátar sem róa utarlega, sem sagt út í kantana, geta verið nánast eingöngu með þorsk en enga ýsu. Ég skoðaði fyrir umræðuna til að mynda einn bát sem er að heiman og heitir Tjaldur. Hann er að róa með beitningu og er auðvitað mun stærri bátur en við erum að fjalla um. Hann var fyrir austan land núna fyrir áramótin og veiddi þar um 1.300 tonn af slægðum þorski en á sama tíma veiddi hann tæplega 15 tonn af ýsu. Þetta er akkúrat það sem þeir sem til dæmis róa frá Bolungarvík sem hafa getað komist þarna út í kantana og svo auðvitað á fleiri stöðum geta gert. Þetta gefur auðvitað möguleika á að bregðast við því mikla vandamáli sem þarna er.

Ég ætlaði einungis að koma þessu að þannig að það væri á hreinu að sá sem stækkaði bátinn og fór með hann upp í 15 metra var einungis að því annars vegar til að tryggja öryggi sjómanna sinna, hafa það enn meira en það er og eins aðbúnaðinn fyrir þá um borð og hins vegar til að geta komið með gott hráefni að landi. Það skapar meiri verðmæti fyrir þjóðarbúið.