141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég er nú einn af þeim sjálfstæðismönnum sem vilja klára aðildarviðræðurnar því að ég er sannfærð um að það sé til hagsbóta fyrir þjóðina að fá að koma á einhverju stigi að því máli. Um leið og ég segi það tek ég undir þá beiðni sem sett hefur verið fram af hálfu þingflokksformanns Framsóknarflokksins um að málið verði tekið upp í forsætisnefnd, því að ríkisstjórnin ákvað allt ferlið í upphafi eftir að Alþingi var búið að samþykkja það.

Ég tel að það verði líka þingsins að ákveða hvernig fjalla eigi um þá tillögu sem hv. þm. Jón Bjarnason setti fram í utanríkismálanefnd því að þá hefðu líka þingmenn fengið tækifæri til þess að koma fram með tillögur, t.d. um tímasetta áætlun um framhald viðræðna eða einfaldlega að koma með breytingartillögu í þá veru að þjóðin geti ákveðið framhald viðræðna í þeim kosningum sem mest þátttaka er.

Mér finnst það miður að komið hafi verið (Forseti hringir.) í veg fyrir það með pólitískum klækjabrögðum að við hér í þinginu hefðum getað fengið þá tillögu sem hv. þm. Jón Bjarnason ræddi um en var vísað frá í utanríkismálanefnd.