141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Aðeins út af málefnum er tengjast ESB. Ég held að nú sé lag til að veita nægilegt svigrúm hér í þinginu til að ræða þessi mál í stað þess að við tökum hálftíma til þess að fara yfir það hér í sérstakri umræðu. Málið er svo mikilvægt og svo brýnt en það er augljóst að þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna vilja helst ekki ræða það.

Ég kem líka hingað upp vegna orða hv. þm. Birgis Ármannssonar því að ég deili með honum áhyggjum varðandi þá fljótaskrift sem er á öllum vinnubrögðum þingsins er snerta stjórnarskrána. Af hverju segi ég það? Jú, vegna fyrsta fundar okkar í allsherjar- og menntamálanefnd á þessu ári. Ekki hefur verið haldinn einn fundur á þessu ári um stjórnarskrána, t.d. um hvernig við ætlum að halda áfram í ferlinu, um það hvað viðmælendur okkar, gestir á fundum nefndarinnar, sögðu þegar þeir komu. Ekki einn fundur.

Síðan var fundur í morgun og málið var tekið út. Aðrir þingmenn voru kallaðir inn til þess að tryggja stjórnarmeirihluta. Við fengum korter til þess að lesa yfir 36 blaðsíðna nefndarálit af hálfu meiri hlutans, en hvað gerðist? (Gripið fram í.) Við fengum ekki tækifæri til þess að ræða það efnislega af því að búið var að afgreiða málið. (Forseti hringir.) Málið var sem sagt afgreitt fyrst og síðan átti að ræða það efnislega en þá voru einungis tveir þingmenn stjórnarmeirihlutans í lok fundarins eftir til að ræða málefni stjórnarskrárinnar. Við erum ekki að ræða um happdrættisstofu, við erum að ræða um stjórnarskrána.