141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég spyr hv. þingmann og hæstv. ráðherra um þær hugsanlegu aðstæður sem kallað gætu það fram að Samkeppniseftirlitið beitti slíku ákvæði er ekki síst sú að það sé gagnlegt sem lögskýringargagn, gangi frumvarpið alla leið og verði að lögum, að farið hafi fram umræður, bæði í nefndum og í þingsal um það stóra álitaefni. Auðvitað getum við aldrei sagt nákvæmlega til um það af því að aðstæður geta verið svo breytilegar. Við búum alltaf við fákeppnisaðstæður á innanlandsmarkaðnum ef við skilgreinum hann einan og sér, sleppum tæknibyltingunni og aðgengi fólks að erlendum fjölmiðlum í gegnum gervihnattasjónvarp og netið sem hefur sem betur fer tekið algjörum stakkaskiptum. Það hefur rofið þá fjölmiðlalegu einangrun sem Íslendingar hafa svo lengi búið við. Tæknin hefur rofið þá einangrun sem betur fer af því að við erum einfaldlega það fá að það verða aldrei aðstæður hér til að halda úti öflugum einkareknum miðlum. Auðvitað skilgreinist fjöldi þeirra, umfang og stærð út frá því hvað Ríkisútvarpið er sterkt.

Ef við erum með ríkisútvarp sem drottnar yfir auglýsinga- og fjölmiðlamarkaði er lítið svigrúm fyrir einkaaðila. Ég er ekki að segja að það sé þannig núna en það er eitt af því sem við þurfum að varast. Þess vegna er svo mikilvægt að ríkisútvarpslögin og frumvarpið sem við vinnum að sé þannig úr garði gert að það taki að einhverju leyti á því eða miði alla vega í áttina, eins og ég held að það geri, af því að ofurveldisríkisútvarp er líka ógn við lýðræðið í einhverjum skilningi. Við viljum hafa samkeppni, við viljum líka öfluga og sem flesta einkarekna ljósvakamiðla. Þess vegna spurði ég hv. þingmann út í það sérstaklega og þær aðstæður sem mögulega gætu knúið það fram að Samkeppniseftirlitið beitti þessari heimild, eignarhaldstakmörkun.

Hitt sem ég vildi spyrja um er hatursákvæðið. Telur hv. þingmaður að þessi útgáfa af því geti gengi upp og að það geti verið samstaða um hana í þinginu, að ákvæðið sé ekki of matskennt eins og það er orðað (Forseti hringir.) hér?