141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

aðgengi fatlaðra að náttúru Íslands.

[13:47]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Í dag ritar maður að nafni Bergur Þorri Benjamínsson grein í Morgunblaðið, en hann hefur beitt sér fyrir málefnum fatlaðra og hefur ásamt mörgum fötluðum mikinn áhuga á því að ferðast um landið. Hann hefur meðal annars ítrekað spurt stofnanir umhverfisráðuneytisins um aðgengi fatlaðra að náttúrunni og ekki bara hann heldur beindi hv. þm. Kristján Þór Júlíusson spurningu til hæstv. umhverfisráðherra í mars 2011 um það hvort hæstv. ráðherra mundi beita sér fyrir því að veitt yrði undanþága vegna umferðar vélknúinna ökutækja þannig að fatlaðir gætu notið útivistar eins og aðrir í náttúrunni. Til að gera langa sögu stutta svaraði hæstv. umhverfisráðherra árið 2011 því mjög jákvætt að hún mundi beita sér fyrir því, en ekki hefur orðið neitt um efndir.

Í ofanálag sjáum við núna nýtt frumvarp um náttúruvernd þar sem almannaréttur er túlkaður mjög þröngt og andi laganna er þannig að fólki er mismunað eftir ferðamáta. Það kemur auðvitað langmest niður á fötluðum, þeim sem eldri eru og börnum. Ég vildi því, virðulegi forseti, í tilefni greinar Bergs Þorra Benjamínssonar, spyrja hæstv. ráðherra um stöðu þessara mála vegna þess að hæstv. ráðherra tók mjög vel í málaleitan þessara aðila fyrir um tveimur árum, og hvort hæstv. ráðherra muni gera eitthvað í þessu áður en hún hættir (Forseti hringir.) sem ráðherra og þá líka í tengslum við náttúruverndarfrumvarpið.