141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

130. mál
[14:16]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Tilurð frumvarpsins má rekja til fullgildingar á viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu frá 15. maí 2003 og tekur frumvarpið mið af fyrirmælum GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu, sem og tilmælum vinnuhóps Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunar um mútur í alþjóðlegum viðskiptum. Frumvarpið kveður á um breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga sem taka til mútubrota þar sem lagt er til að alþingismenn og gerðarmenn í gerðardómi falli undir ákvæði laganna um mútugreiðslur og mútuþágu.

Þetta er meginmarkmiðið með frumvarpinu þó að einnig séu nokkur önnur atriði talin upp, til dæmis þau að refsiábyrgð erlendra opinberra starfsmanna taki jafnframt til erlendra gerðardómsmanna og refsihámark fyrir brot vegna mútugreiðslu verði hækkað úr þremur árum í fjögur. Kjarninn er sá að þau nái til þingmanna og gerðardómsmanna. Um þetta var ágæt sátt í nefndinni og eru þingmenn allra flokka sem þar eiga sæti á meirihlutaálitinu. Leggur nefndin til að frumvarpið verði (Forseti hringir.) samþykkt óbreytt.