141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[14:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það sem vekur athygli við þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda er það sem ekki stendur í því. Í fyrsta lagi er ekkert rætt um að gera breytingar á stjórn lífeyrissjóðanna, hvernig hún er kosin o.s.frv. Sjóðfélagar hafa yfirleitt ekkert um stjórn sjóðsins síns að segja. Þeir eru skyldaðir til að afhenda 12% af launum sínum með lögum frá Alþingi og svo skal eitthvert annað fólk sjá um að ráðstafa peningunum enda er sjóðfélaginn sennilega of vitlaus til þess að mati þeirra sem ráða og stjórna.

Ég tel að breyta þurfi lögum um stjórn lífeyrissjóðanna og það frumvarp liggur fyrir í þeirri nefnd sem þessu er vísað til. Ég mundi þá vilja að menn skoðuðu það að sameina þessi tvö frumvörp þannig að tekið yrði á því að fólk sem er skyldað til að láta 12% af tekjum sínum inn í þetta kerfi hafi eitthvað um það að segja hvernig þessu er varið, hvernig þeim peningum er ráðstafað.

Hrunið var miklu meira en hv. þm. Lilja Mósesdóttir sagði. Það var nefnilega þannig að lífeyrissjóðirnir áttu erlendar eignir sem tvöfölduðust í verði. Sjóðirnir eru nefnilega gerðir upp í krónum sem lækkuðu um helming í verði. Jafnvel miðað við það var hrunið, þessar gífurlegu tölur sem hv. þingmaður nefndi, 520 milljarðar, í reynd miklu meira. Lífeyrissjóðirnir áttu 400 milljarða í erlendum eignum sem tvöfölduðust í verði vegna þess að krónan féll. Það kom sem plús út úr hruninu og afleiðingin er sú að neikvæð staða þeirra versnaði sennilega um meira en 500 milljarða, jafnvel um 700–800 milljarða; og alveg sérstaklega ef þeir hefðu nú verið mældir í evrum eða dollurum, í erlendri mynt sem sagt.

Þetta frumvarp er smáplástur á það sár sem myndaðist í hruninu. Nú eru lífeyrissjóðirnir á fullu að kaupa hlutabréf en samt hefur engu verið breytt varðandi hringferla fjár í hlutafélögum sem var nú ein aðalástæða hrunsins. Menn spóluðu upp eigið fé í félögum og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að svo verði áfram. Engu hefur verið breytt í lögunum í því sambandi. Lífeyrissjóðirnir fjárfesta núna aftur í hlutabréfum og virðast ekki gera neinar kröfur til þess að þessir hringferlar fjár séu stöðvaðir þó að ekki væri nema með yfirlýsingu frá stjórnum félaganna sem þeir eru að kaupa í, yfirlýsingu um að þeir muni ekki láta peninga fara í hring til að auka eigið fé fyrirtækjanna en mikið er horft til eigin fjár sem mælikvarða á gæði hlutafélaga. Eins og ég hef margoft nefnt er hægt að búa til það eigið fé sem menn vilja í raun með því að láta peninga fara í hring og hefur það verið margoft rætt, t.d. í sambandi við frumvarp mitt um gegnsæ hlutafélög.

Í þessu frumvarpi er eitt og annað til bóta. Ég sakna þess í 1. gr. að ekki sé talið upp í lögunum það sem á að koma fram í reglugerð, að reglurnar séu settar í lög en valdið ekki framselt til hæstv. ráðherra. Mér finnst svona víðtæk reglugerðarheimild ekki vera til bóta og ég mun leggja til í hv. nefnd, sem ég sit í, að það verði skoðað að setja reglurnar inn í lögin en ekki að fela ráðherra að setja reglugerð sem hann getur haft eins og honum dettur í hug, sem er alltaf dálítið varasamt.

Þetta frumvarp er ágætt eins og ég segi. Það er verið að taka þarna á innra eftirliti og innri endurskoðun. Kannski kemur það að einhverju leyti í veg fyrir annað hrun og tap vegna hlutabréfa. En hlutabréfamarkaðurinn hefur hækkað mjög mikið undanfarið og sumir telja að það sé bólumyndun vegna þess að við búum við gjaldeyrishöft, að of margar krónur séu að keppa um of fáa fjárfestingarkosti. Það kann ekki góðri lukku að stýra, frú forseti.