141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

almenn hegningarlög.

420. mál
[15:34]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og hversu vel hv. þingmaður fór yfir málið. Hann tók vel í meginefni frumvarpsins. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að það eru ýmis efni þarna sem eðlilegt er að séu gaumgæfð í nefnd, en þingmaðurinn vakti máls á þeim grundvallarstefjum sem er að finna í frumvarpinu. Þarna er tekið á því hvernig og á hvaða forsendum hægt sé að dæma ósakhæfa einstaklinga til meðferðar og einstaklinga sem eru sakhæfir en óttast er að fremji brot eftir að afplánun dóms lýkur.

Það er alveg rétt, og ég tek undir með hv. þingmanni, að slíkt er mjög íþyngjandi. Þess vegna þarf tvennt að vera til staðar, í fyrsta lagi að slíkt sé alltaf gert á forsendum dóms og í öðru lagi þurfa lögin og reglurnar að vera skýr. Hv. þingmaður vék að tímasetningum hvað það snertir því að það er alveg rétt að það má ekki henda að einstaklingur sé dæmdur til stofnanavistar eða til eftirlits og síðan sé hann gleymdur. Í lögunum er skýrt kveðið á um tímaramma í þessum efnum, hvenær lög kveða á um að málið skuli tekið til endurmats.

Allt er það því satt og rétt. Hér var vísað til áfengismeðferðar og vímuefnameðferðar, það er að finna í í 2. gr. þessara laga, en það er eðlilegt að nefndin sem fær málið til umfjöllunar gaumgæfi öll þau atriði. Ég vil í grófum dráttum taka undir þær megináherslur sem fram komu í máli hv. þingmanns. Það er mjög mikilvægt að Alþingi afgreiði málið nú á næstu vikum áður en þingi lýkur. Ég hygg að um það sé þverpólitísk sátt.