141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

raforku-, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga.

[16:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er óhætt að segja að óveðrið sem gekk yfir Vestfirði undir síðustu áramót hafi valdið miklum vandræðum og, eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefur vakið máls á, opinberað ýmsa veikleika í kerfinu sem við þurfum að skilgreina og átta okkur á. Þess vegna er þetta gagnleg umræða sem hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir og Einar K. Guðfinnsson efna hér sameiginlega til. Það sem gerðist í þessu óveðri var að rafmagnsleysi varð í sumum tilvikum, eins og fram kom í máli málshefjanda, langvarandi og varði í nokkra daga og því fylgdu ýmsir fylgikvillar. Varaaflsstöðvar, dísilstöðvar, biluðu svo að mikilvægt dæmi sé nefnt. Á þessu fyrirtæki eru fjögur til fimm fjarskiptafyrirtæki, þ.e. Síminn, Vodafone, Snerpa, Míla, þarna er Neyðarlínan líka, sem reka fjarskiptakerfi.

Frá því er skemmst að segja að fjarskiptavirkin, mannvirkin sjálf, stóðust veðuráhlaupið með einni undantekningu, það var í Flatey, þar sem fjarskiptamastur féll um koll. En langvarandi rafmagnsleysi varð hins vegar þess valdandi að varaafl kláraðist. Rafhlöður á fjarskiptasendum og í sumum tilfellum í símstöðvum, þá kláraðist varaaflið. Með þessu rofnuðu fjarskiptin, GSM-símsamband rofnaði og í einhverjum tilvikum fastlínusamband líka þar sem varaaflið þraut í símstöðvunum. Eins og hv. þingmaður nefndi sagði þetta einnig til sín í Tetra-kerfinu, í samtengingu innan Tetra-kerfisins. Auðvitað tek ég undir að það er grafalvarlegt mál þegar svo gerist.

Þannig er að þessi fyrirtæki, fjarskiptafyrirtækin, annast sjálf áhættumat á þeirra sviði og síðan er það Póst- og fjarskiptastofnun sem fylgist með því að þau fari að settum reglum og hafi eftirlit þar að lútandi. Frumathuganir leiða í ljós að kerfin uppfylltu þær kröfur sem fyrirtækin höfðu sett sér nema að þörfin á varaafli var meiri en áhættan sem miðað var við í öllum þeirra áætlunum. Þar er vandinn, fyrst og fremst í raforkukerfinu sem brást vegna veðursins og bilana sem upp komu og erfitt var að ráða við.

Ráðuneytið gekkst fyrir því að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjunum. Póst- og fjarskiptastofnun hefur verið að fara yfir þær upplýsingar og spyrja eftir því hvernig þau hafi brugðist við. Verið er að taka það föstum tökum í öllum tilvikum í svari sem barst frá Skiptum, sem rekur Símann, segir á þá leið að ákveðið hafi verið að fara yfir mikilvæg gagnasambönd í samstarfi við helstu hagsmunaaðila og auka varaafl eins og er talið þurfa fyrir sambandakerfið. Nú þegar hafi verið tilgreindir nokkrir staðir þar sem tækifæri eru til úrbóta fyrir verkefni í farvegi með helstu hagsmunaaðilum.

Í svari frá Vodafone segir að komið hafi verið á viðbótarleið sem minnki áhrif verulega ef til sambærilegra truflana kemur. Enn fremur eru áætlanir um meginstofntengingar á vesturleið til Ísafjarðar og kröfur um styrkingu varaafls á stofnleiðum um Djúp og Strandir hjá birgjum. Færanleg rafstöð hafi verið staðsett á Ísafirði og endurbætur á varaafli á nokkrum stöðum séu komnar í vinnslu, og þarna er nefnt Ögurnes, Ennishöfði, Sandfell, Flateyri. Einnig kemur fram að unnið sé að fleiri greiningum á ástandi varaaflsbúnaðar, rafgeyma og verða ákvarðanir teknar að þeirri vinnu lokinni.

Hér tók ég aðeins niður í svörum sem komið hafa frá tveimur fyrirtækjum, en Neyðarlínan er að vinna sams konar svör og úttektir. (Forseti hringir.) Ég vil segja það, og kem nánar inn á aðra þætti sem hv. þingmaður vék að í mínu lokasvari, að fjarskiptafyrirtækin eru að taka á þessum málum af mikilli festu og mikilli ábyrgð.