141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

sala fasteigna og skipa.

457. mál
[17:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um sölu fasteigna og skipa. Hæstv. ráðherra hefur farið ítarlega í gegnum frumvarpið sem í eru 30 greinar auk ákvæða til bráðabirgða og í því felast nokkuð miklar breytingar. Eins og hæstv. ráðherra sagði hefur þetta verið flutt mörgum sinnum og aldrei náð í gegn. Núna hlýtur maður að spyrja: Af hverju kemur það svo seint fram sem raun ber vitni? Það er ekki langt eftir af þessu þingi og gríðarlega stór mál liggja fyrir, t.d. stjórnarskrármálið og fyrirhugað kvótamál. Ég vona samt að þetta verði afgreitt, ég sit nú í nefndinni sem um þetta fjallar og mun óska eftir því að menn sendi það fljótlega til umsagnar svo hægt verði að fá um það umsagnir og gesti á fund vegna þess að hér er verið að gera þó nokkuð miklar breytingar.

Ég ætla ekki að fara í gegnum þær en spyr hæstv. ráðherra: Af hverju er frumvarpið svona seint á ferðinni?