141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:15]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Enn ein könnunin hefur nú leitt í ljós að illa gengur að uppræta launamun kynjanna og það á sér stað þrátt fyrir vinsamleg tilmæli, viljayfirlýsingar, verkferla og jafnlaunastaðla. Þó að ýmislegt hafi verið gert til að uppræta launamuninn í gegnum árin ætti þessi munur að vera hættur að koma okkur á óvart. Ekki er nóg með að hér hafi liðist í ótal ár að meta konur og karla misjafnt í sambærilegum störfum, hér hefur líka liðist að meta hefðbundin kvennastörf minna en störf karlmanna. Kynbundinn launamunur sýnir einfaldlega að konur eru metnar minna í samfélaginu.

Launamunur kynjanna sýnir mælikvarða kapítalismans á manngildi og mismunandi gildismat í kynjakerfi á konum og körlum. Við getum ekki rætt um launamisrétti sem einangrað fyrirbæri sem hægt er að leiðrétta eitt og sér, kynbundin launamismunun er birtingarmynd af öðru miklu stærra vandamáli sem er misrétti í samfélaginu í heild sinni.

Megináherslan hlýtur því að vera á að breyta samfélaginu í heild sinni í þá átt að bæði kyn geti notið sín, verið frjáls og verið metin að verðleikum. Við upprætum kynbundinn launamun með því að styrkja velferðarkerfið, við upprætum kynbundinn launamun með því að brjóta upp staðalmyndir kynjanna, með því að losa konur við ógn af ofbeldi, með því að vinna gegn því að það geti talist eðlilegt að líkamar kvenna og sjálfsvirðing geti verið föl fyrir aura. Og síðast, en alls ekki síst, með því að frelsa karlmenn undan kröfu um að vera skaffarar.

Í samfélagi þar sem raunverulegt jafnrétti ríkir verður að sjálfsögðu ekkert launamisrétti.