141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa blandað sér í umræðuna og ég vonast til þess að hún skili einhverjum árangri. Ég hef verið á þingi í fjögur ár og það er stundum eins og maður sé alltaf að segja sömu hlutina en maður sér kannski ekki neinar breytingar komast í framkvæmd. (Gripið fram í.) Vonandi verður nú gripið til þess að láta efndir fylgja þeim góðu orðum sem hér hafa komið fram og hvet ég hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum.

Stjórnvöld hafa auðvitað lengi, bæði í tíð þessarar ríkisstjórnar sem og fyrr á tíðum, verið dugleg við að lýsa því yfir að stefna beri að því að útrýma kynbundnum launamun. Það er alveg rétt, en hins vegar hefur skort á og skortir enn á að það komi fram tímasetningar og áætlanir um hvernig eigi að fylgja því eftir að útrýma óútskýrðum kynbundnum launamun. Eins man ég ekki til þess að nokkurt fjármagn hafi verið í þeim fjárlögum sem samþykkt voru í desember í þetta verkefni.

Frú forseti. Það er gott að tala um hlutina, það er gott að við erum flestöll sammála um að hér sé verkefni sem þurfi að ráðast í, en ég kalla eftir því að hér komi fram tímasetningar og verklag sem sýna okkur fram á að eitthvað verði gert í hlutunum. Ég bendi aftur á að þeir sem stjórna hjá sveitarfélaginu Reykjanesbæ og eins hjá Akureyrarbæ hafa náð árangri í þessa veru. Þeir þurftu ekki að setja á stofn nefndir sem störfuðu í mörg ár, þeir þurftu ekki að fá jafnlaunastaðal sér til aðstoðar, þeir settust einfaldlega yfir launakjörin, og löguðu það sem þurfti að laga og náðu árangri. Vilji er það sem þarf.