141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til að þakka fyrir þessa jákvæðu umræðu. Þeir sem tekið hafa til máls eru allir á því máli að við séum að stíga rétt skref fram á við með því að auka vægi persónukjörs við kosningar. Það kom fram í máli hv. þingmanna Valgeirs Skagfjörðs og Loga Más Einarssonar og þeir eiga það sammerkt með öðrum sem hafa tekið til máls, eins og hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, að vilja jafnvel stíga róttækari skref í þessum efnum en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Það sama á við um hv. þm. Pétur Blöndal.

Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Lúðvíks Geirssonar að þótt við séum ekki að ganga eins langt og margir vildu þá er þetta tilraun til málamiðlunar. Við erum alla vega komin með grunn til að ræða málið út frá. Í mínum huga væri að sjálfsögðu æskilegast að málið fengi sem skjótasta afgreiðslu, en höfuðmáli skiptir þó að afgreiðslan og umfjöllunin sé vönduð og byggi á sem víðtækastri sátt. Það þarf náttúrlega að stýra för í meðferð þessa mikilvæga máls að þeir sem koma að sveitarstjórnarmálum séu líka sáttir við það sem við erum að gera.

Við skulum líka gæta okkur á því að fulltrúum á fulltrúasamkomum hættir til að vera íhaldssamari en gerist úti í þjóðfélaginu. Ég hef grun um að þeir sem tóku til máls um þetta frumvarp núna endurspegli ekki endilega allan þingviljann heldur er það til marks um áhuga þessara þingmanna á því að auka vægi persónukjörs.

Ég velkist ekki í nokkrum vafa um það að í samfélaginu er góður hljómgrunnur fyrir þessi viðhorf og ég er ekki í nokkrum vafa um það heldur að þetta er framtíðin.