141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:19]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta mál er hér í 3. umr. og verða væntanlega greidd um það atkvæði á morgun, ég sé ekki betur en að þetta frumvarp sé að verða að lögum nema eitthvað óvænt gerist. Ég gat ekki verið við 2. umr. um málið. Ég vil þess vegna skjóta inn nokkrum orðum við 3. umr. en segja strax að ég hyggst greiða frumvarpinu atkvæði mitt og athugasemdir mínar eiga að skoðast í því ljósi.

Um tvennt er að ræða í þessu frumvarpi. Annars vegar eru það þessar nýju reglur um skráningu barns í trúfélag og í þeim felst ótvíræð framför. Börn eru sem sé skráð sjálfkrafa ef faðir og móðir eru í sama félagi eða bæði utan félags í stað þess sem viðgengist hefur hér lengi að farið er sjálfkrafa að aðild móður. Það þarf ekki mikið um það að segja en þetta var auðvitað ekki eðlilegt ákvæði þó það ætti sér kannski skýringar í íslenskum aðstæðum og kom einu trúfélagi betur en öðrum. Í raun og veru þætti mér þó eðlilegra, ég tel að það séu næstu skref í málinu, að annaðhvort þyrfti að skrá barn sérstaklega í trúfélag, það fái ekki sjálfkrafa skráningu eftir trúfélagi föður og móður þó að þau séu í sama trúfélagi heldur sé það sérstök ákvörðun foreldranna að skrá það í trúfélagið og það verði ekki gert á vegum hins opinbera. Eða hitt, sem væri kannski náttúrlegast og í bestu samræmi við aðrar reglur um barnsaldurinn, að barn verði ósköp einfaldlega ekki skráð í trúfélag á vegum hins opinbera, hvernig sem trúfélögin hafa það sjálf. Frekar væri miðað við sjálfræðisaldur, 18 ár, þá kvæði hinn nýfullorðni upp úr um það sjálfur með einhvers konar umsókn eða merkingu á skattframtali í hvaða trúfélag hann vildi fara. Þetta teldi ég að væri heppilegasta skipunin en tek fram að það mundi auðvitað ekki skerða rétt trú- eða lífsskoðunarfélaganna til að haga skráningu með sínum hætti. Þetta ætti sem sé við um hina opinberu aðila.

Að hinu leytinu er verið að hleypa að öðrum félögum en beinum trúfélögum eða söfnuðum, lífsskoðunarfélögum svokölluðum. Þetta hefur ekki verið hægt hingað til og umsóknum sem menn hafa sent inn um þetta á vegum Siðmenntar hefur verið hafnað. Í raun og veru er það rökrétt í samræmi við lögin, hér er ekki um trúfélag að ræða.

Mér heyrast allir vera meira og minna hlynntir þessari breytingu núna og það er auðvitað framfaraskref að menn skuli geta sameinast nokkurn veginn um þetta. Mér hafa heyrst deilur eða athugasemdir um frumvarpið yfir höfuð hafa varðað aðra hluti en þennan hér. Þetta er gert að norskri fyrirmynd. Mér sýnast skilgreiningarnar vera fullnægjandi þó lengi megi um þær deila. Ég ætla ekki að skipta mér af hinum fræðilegu áherslum um skilgreiningar sem hafa komið við sögu í þessu máli en þær eru heldur strangari en í Noregi. Þar að auki er hér heimild til að binda stofnun trúfélags eða lífsskoðunarfélags við ákveðinn lágmarksfjölda sem gæti komið í veg fyrir strákslæti eða eitthvað sem ekki er í nægilegri alvöru. Á meðan þessu er hagað svona, að trúfélög og lífsskoðunarfélög njóti ákveðinnar aðstoðar og fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera og fái þar með aðgang að opinberu fé með ýmsum hætti, þá verður auðvitað að gera lágmarkskröfur til starfsemi þessara félaga.

Ég tel þetta vera framfaraskref í sjálfu sér en legg áherslu á að með þessu frumvarpi er þó ekki leyst það mál sem ég beitti mér fyrir fyrr á árum, á fyrstu heimsóknum mínum á þingið, að leyst yrði, þ.e. að réttur manna sem vilja standa utan félaga sé líka virtur. Áfram verður það þannig að þeir sem ekki kjósa að vera í trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi þurfa að borga gjald sem er jafnhátt hinu gjaldinu. Það rennur áfram beint í ríkissjóð eins og nú er, en átti áður að renna í almennan sjóð Háskóla Íslands og gerði það lengi. Síðan rann þetta gjald í Háskólasjóð svokallaðan, en það öfundaði enginn háskólann af þessum peningum.

Þetta er ekki eðlilegt nema um sé að ræða sérstakan skatt sem menn vilja þá leggja á í þessu skyni. Bent var á það í umræðum um þetta mál á árum áður, m.a. á árinu 1913 frekar en 1911, þegar barist var fyrir auknu trúfrelsi og ýmsum öðrum framfaraskrefum t.d. kosningarrétti kvenna hér á þinginu. Þá kom fram að þetta fyrirkomulag þyrfti að vera svona vegna þess að hætt væri við að trúfélögin misstu spón úr aski sínum ella, þ.e. að menn mundu ekki tíma að vera í þjóðkirkjunni, sem fyrst og fremst var um að ræða á þeim tímum og reyndar á okkar tímum líka. Núna er meiri feimni við þetta. Sú feimni kemur m.a. fram í áliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, að honum algerlega ólöstuðum. Þar er tekið sérstaklega fram að þessi gjaldtaka sé í raun innheimta félagsgjalda eða sóknargjalda, í langflestum tilvikum hljóta þau að heita það, og væntanlega er það tekið fram vegna umræðu innan nefndarinnar og í 2. umr. Um þetta má deila og um þetta hefur verið deilt. Mér sýnist að á meðan þessu ákvæði er hagað þannig að menn sem ekki eru í félagi, hafa ekki tengsl við sóknina, eiga engan prest, eru reiðubúnir að láta ferma sig, giftast, jarðsetjast eða haga athöfnum sínum og almennu lífi með þeim hætti að það fari ekki fram samkvæmt ákveðnum reglum sem tíðkast í söfnuði, trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi, þurfa að borga gjald eins og hinir þá geti ekki verið um það að ræða að ríkið sé að innheimta félagsgjöld eða sóknargjöld.

Mér finnst það galli á þeim málflutningi meiri hlutans og margra þeirra sem standa að þessum trúfélögum, þjóðkirkjunni sérstaklega, að um sóknargjalds- eða félagsgjaldsinnheimtu sé að ræða, að ríkið standi hér fyrir innheimtu gjalds hjá þeim sem ekki eru í neinu félagi eða tilheyra engri sókn.

Þetta vildi ég sagt hafa, en í þessu felst innri gagnrýni. Ég styð þau skref sem hér eru stigin og vænti þess að fleiri verði stigin síðar en tel að þetta sé ótvíræð framför og þakka meiri hlutanum og öllum þeim sem komið hafa að málinu fyrir vinnu þeirra.