141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa áréttingu. Líklega erum við hv. þingmaður nokkuð sammála í þessum efnum. Ég sætti mig að skrefin séu í þetta sinn svo stór sem raun ber vitni og tel það ótvíræða framför. Við erum að ræða um jafnræði, við erum að ræða um mannréttindi, og framfaraskref í því efni eru auðvitað alltaf gleðileg.

Já, það er auðvitað kominn tími til þess eftir öll þessi ár, komin er heil öld síðan þessi skipan komst á í stórum dráttum, að menn skýri þetta fyrir sér. Er ríkið að gegna hlutverki innheimtumanns eða er það að gera eitthvað annað? Ef það er að gegna hlutverki innheimtumanns, af hverju innheimtir það þá hjá öðrum en þeim sem skulda peningana? Það er alveg augljós galli í þeirri röksemdafærslu að hér sé um innheimtu félagsgjalds, sem heitir sóknargjald í mörgum tilvikum, að ræða, að það skuli vera svo.

Ég flutti frumvarp á árum áður um að afnema gjaldið, þ.e. að menn utan safnaða eins og það hefur heitið lengi, þyrftu ekki að borga það gjald. Ég las þess vegna umræðurnar á þinginu um stjórnarskrárfrumvarp frá 1911 og 1913 sem tók gildi 1915 af því kóngurinn gat ekki undirritað þau strax, það er þessi fræga framfarastjórnarskrá sem þá var samþykkt. Það er skrýtið að við skulum enn standa í sömu stellingum og forverar okkar og áar gerðu fyrir 100 árum í þessu efni.

Þetta er framfaraskref. Ég þakka meiri hlutanum fyrir það og þeim ráðherra sem þetta flutti og þeim sem að þessu hafa staðið.