141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hafði lokið mínu máli en vaknaði aftur þegar hv. þm. Ásbjörn Óttarsson tók til máls og vil segja nokkur orð, þó ekki mörg, út frá ræðu hans. Hann og hv. þm. Skúli Helgason, framsögumaður nefndarinnar, hafa talað um lífsskoðunarfélögin og ég hef svo sem litlu við það að bæta. Skilgreiningin getur aldrei orðið annað en matskennd og þess vegna er sérstök nefnd sem á að fjalla um umsóknir slíkra félaga og reyndar allra félaga hér eftir sem hingað til því að slík nefnd hefur verið að störfum til þess að fjalla um það hvort ný trúfélög geti passað inn í matskennda skilgreiningu núgildandi laga á trúfélögum. Slíkar skilgreiningar geta aldrei orðið annað en einhvers konar rammi sem síðan þarf með ýmsum hætti að skoða.

Það sem við bætist núna, eins og ég tiltók í ræðu minni, er að ráðherra hefur heimild til að gera að skilyrði lágmarksfjölda í trúfélagi svo að menn fari ekki að leika sér með þetta, þannig að maður tali nú bara íslensku, eða geri þetta af einhverjum stráksskap eða í einhverri vitleysu. Þannig að ég held að hér sé ekkert að óttast. Mér þykir það enn staðfestast af málflutningi Péturs Péturssonar og Bjarna Randvers Sigurvinssonar sem er athyglisverður. Ég hef ekki starfað í nefndinni frekar en hv. þingmaður þannig að ég ætla ekki að blanda mér í þá deilu, en sé það matskennt hvað lífsskoðunarfélag er samkvæmt frumvarpinu verður það enn þá matskenndara í tillögum Péturs og Bjarna Randvers. Þeir leggja til að ein skilgreining nái yfir hvort tveggja, bæði það sem við köllum trúfélag og það sem við köllum lífsskoðunarfélag. Slík skilgreining þarf að vera nokkuð víð, eins og menn geta ímyndað sér, til þess að ganga upp.

Ég vil segja um sóknargjaldamálið að ég held — ég geri nú ekki meira en að halda það vegna þess að ég hef ekki heimildir hér við höndina — að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni að sóknargjaldaskipanin, eða fyrirgefið, forseti og þingheimur, að það fyrirkomulag að ríkið taki gjald af borgurum landsins og greiði það síðan trúfélögum eins og nú er eða láti það renna í ríkissjóð, sé ekki í þeim samningum ríkisins við kirkjuna sem menn vitna oftast til og eru frá 1995 eða 1996, 10. áratug síðustu aldar. Það standi frekar í sambandi við það samkomulag sem gert var árið 1907 og er frægt í þessum efnum. En það á sér lagastoð í um það bil 100 ár þannig að ekki er um það að ræða að verið sé að rjúfa hið nýja samkomulag við kirkjuna eða hreyfa neitt við því. Þetta er ekki samkvæmt þeim samningi. Það má segja kannski að þetta sé hins vegar þáttur í sambúð ríkisvaldsins við þjóðkirkjuna og önnur trúfélög og nú, ef þetta verður samþykkt, almenn lífsskoðunarfélög.

Það þriðja sem ég vildi áminna hv. þingmann um er að fara varlega þegar hann talar um að menn séu hér með einhverjar ógnir við þjóðkirkjustarfið eða mikla gagnrýni á það starf sem fer fram innan þjóðkirkjunnar. Það er held ég ekki. Auðvitað hafa alltaf verið til menn sem hamast gegn kirkjum, það má nefna Þórberg Þórðarson, það má nefna Voltaire, og ýmsir prestahatarar verið til í sögunni, bæði þá og nú. En það sem hér hefur að undanförnu farið fram er að menn hafa viljað skilja á milli starfsemi trúfélaga annars vegar og opinbers skólastarfs hins vegar og ég held að það sé rétt.

Ég held að þegar við höfum jafnað okkur á þessu hljóti menn að fallast á það að í skólum, eins og t.d. er í Frakklandi og Bandaríkjunum, fari fram almenn trúarbragðafræðsla með áherslu á þau trúarbrögð sem standa næst menningu og sögu viðkomandi ríkis en í kirkjum og á vegum þeirra, þar lifi guðsorðið og boðunin, og þessu eigi ekki að blanda saman. Ég held að smám saman komumst við að raun um að þetta sé hið eðlilega fyrirkomulag. Mér sýnist að hinir skynsamari menn, bæði meðal þjóðkirkjunnar og að ég tali nú ekki um meðal annarra trúfélaga sem miklu síður hafa komist í skólana, séu smám saman að taka undir þá stefnu í flestum sveitarfélögum.