141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Eins og fleiri byrja ég á því að óska Íslendingum til hamingju með þá skýru og alls ekki tilviljunarkenndu niðurstöðu EFTA-dómstólsins í upphafi vikunnar Íslandi í hag og tengist Icesave. Ég er ein af þeim sem var eindregið á móti fyrstu tveimur Icesave-samningunum, bæði út af vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og þeim gríðarlegu fjárskuldbindingum sem hefðu lagst á herðar íslensku þjóðarinnar. Það verður að segjast eins og er að við stóðum mörg að þriðja samningnum, m.a. á málefnalegum grundvelli, fengum til liðs við okkur fagfólk, menn sem höfðu eindregið lýst yfir skoðunum sínum út frá lagalegum sjónarmiðum, eins og Lárus Blöndal, og við treystum.

Sem betur fer fór allt vel á mánudaginn. Það var á engan hátt tilviljunarkennt eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði áðan. Mér fannst miður að áhrifamiklir aðilar í samfélaginu reyndu að tala dóminn niður áður en hann var felldur en það er alveg skýrt að mínu mati að hann er skýr og bindandi fyrir íslensku þjóðina og gefur vonandi tilefni til þess að menn fari skilvirkt og reglulega yfir það hvernig skuldbindingar eiga að vera innan fjármálakerfisins til lengri tíma litið, bæði á Íslandi og innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ég tek undir það sem fleiri hafa sagt um þau orð sem hv. þm. Magnús Orri Schram sagði svo vel í fésbókarfærslu sinni í gær. Hins vegar er hjákátlegt að tala um vinnubrögð, daginn eftir á að svo að byrja að fjalla um stjórnarskrána — og hvernig byrjar umræðan? Tilkynning fyrir morgundaginn er að það eigi að vera fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, fundur um nákvæmlega þetta mál sem er komið á dagskrá fundarins í dag, opinn blaðamönnum. Hvers konar vinnubrögð eru það?

Ég legg til, frú forseti, að þessu máli verði frestað þar til sá fundur hefur verið haldinn. Fyrr á ekki að taka þetta mál á dagskrá. Allt sem hefur verið gert í því er ekki bara keimlíkt þeim vinnubrögðum sem voru í Icesave-málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar, heldur er það miklu verra. Mál sem snertir stjórnarskrána (Forseti hringir.) og ríkisstjórnin hefur lagt fram þarf að stöðva eins og það liggur fyrir núna.