141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[15:46]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum, segir í 65. gr. stjórnarskrárinnar, og þar er áskilnaður um að ekki megi mismuna fólki á grundvelli trúarbragða, skoðana eða annarra þátta sem ákvarða félagslega stöðu þess. Þetta grundvallarákvæði stjórnarskrárinnar hefur ekki verið virt sem skyldi þegar litið er til stöðu lífsskoðunarfélaga á Íslandi og það hefur verið gagnrýnt með réttu að hér á landi höfum við ekki virt ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu sem heimilar ekki að félögum sé mismunað eftir því hvort sannfæring þeirra er sprottin af veraldlegum eða trúarlegum toga. Þetta frumvarp snýst um að eyða þeirri mismunun og virða jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Ég greiði stoltur og glaður atkvæði með samþykkt þess og fagna því að við skulum fá tækifæri til að treysta grundvallarmannréttindi í samfélagi okkar hér í dag.