141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir hennar ræðu. Það skýrðist mjög í ræðunni hvað þetta frumvarp er raunverulega sundurlaust og sundurtætt vegna þess að erfitt er að halda athygli. Svo við tölum um þessar breytingartillögur sem er verið að leggja fram inn í 2. umr. Búið er að umbylta köflum, setja inn nýjar skýringar og svo framvegis, sem ekki nokkur einasti einstaklingur eða fræðimaður hefur komið að. Þess vegna er rétt að spyrja hér í upphafi 2. umr.: Hvernig sér formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar það fyrir sér þegar álit Feneyjanefndarinnar kemur hér fyrir nefndina? Hún boðar mikla samvinnu og að margir nefndarfundir verði á meðan málið er hér inni í þinginu. Verður málið þá tekið (Forseti hringir.) af dagskrá þingsins og sett inn í nefndina, (Forseti hringir.) eða hvernig er vinnulagið þá 20 daga sem eftir (Forseti hringir.) eru af þinginu?