141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:27]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Ég er sammála frummælendum hér í dag um að lítil og meðalstór fyrirtæki skipta gríðarlega miklu máli og ættu að fá miklu meiri athygli í samfélaginu. Það er miklu auðveldara að skapa störf í litlum og meðalstórum fyrirtækjum en t.d. í stóriðju þar sem þarf að virkja og allt er miklu þyngra á bak við hvert starf. Ég er þingmaður Suðurkjördæmis og þar hafa menn verið að baksa við að reisa álver í Helguvík. Það er gríðarstórt mál og við sjáum ekki alveg fyrir endann á því enn þá. Ég hef oft velt fyrir mér hvað við værum búin að skapa mörg störf ef við hefðum einbeitt okkur að því að skapa störf í litlum og meðalstórum fyrirtækjum í staðinn fyrir að eyða allri þessari orku í að búa til eitt stórt fyrirtæki. Flest stór fyrirtæki voru líka einu sinni lítil, gleymum því ekki. (Gripið fram í.)

Fjöldi starfsmanna í áliðnaði er t.d. um 1% af vinnuafli á Íslandi. Það þýðir að 99% vinna við eitthvað annað. Þar eru litlu og meðalstóru fyrirtækin stór hluti en þetta þýðir líka, ef við ætlum að einbeita okkur að þeim, sem ég held að sé gott, að minnsta kosti í bland við annað, að við ættum að hlusta minna á t.d. Samtök atvinnulífsins sem tala aðallega fyrir hönd stóru fyrirtækjanna. Hagsmunir stóru fyrirtækjanna fara ekkert alltaf saman við hagsmuni minni fyrirtækja.

Ég get vel tekið undir það að skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja mætti einfalda og við ættum líka að gera enn meira af því að setja fram hvata og ýta undir nýsköpun og hugsa grænt og skapandi þegar kemur að atvinnulífinu. Það hefur verið gert hér síðustu fjögur árin og við ættum að gera enn meira af því. (Gripið fram í: Alveg feiknarlega góður …)