141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson ætti að nota landsfund Samfylkingarinnar sem hefst á morgun til að ræða við aðra forustumenn í flokki sínum um það hvaða stefnu þeir ætli eiginlega að taka varðandi þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, hvenær hún eigi að vera og hvernig þeir ætli að fara að því framkvæma hana, vegna þess að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla sem ætti að fara fram samhliða alþingiskosningum þyrfti að byggja á einhverjum nýjum lögum því að sá frestur sem greindur er í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna er liðinn þannig að ekki yrði farið eftir þeim lögum. Þarna er því greinilega, miðað við misvísandi yfirlýsingar einstakra forustumanna í Samfylkingunni, einhver vafi sem hv. þingmenn og forustumenn Samfylkingarinnar geta notað landsfundinn til að skerpa á.

Hitt er annað mál, ég get sagt að þær ábendingar sem ég vísaði til áðan og er að finna á bls. 68 neðst í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ábendingar um óskýrleika greinargerðar og brýna þörf á að meta áhrif frumvarpsins, eru góðar ábendingar frá meiri hluta allsherjarnefndar. Það verk er (Forseti hringir.) óunnið sem þarna er vísað til, matið og eins að gera greinargerðina skýrari er óunnið.