141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

olíuleit á Drekasvæðinu.

[16:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegu forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Raunar hafa mörg þeirra atriða sem ég hefði viljað vekja máls á þegar verið nefnd.

Ég vil nefna það að fyrir ekki lengri tíma en svo sem eins og fjórum árum þótti það alveg afspyrnueinkennilegt að setja spurningarmerki yfir höfuð við þessi mál, en hér eru margar raddir þingmanna úr ýmsum áttum sem velta upp efasemdum og vangaveltum um málin. Ég vil í fyrsta lagi nefna þá staðreynd að viðfangsefni núlifandi kynslóða er m.a. að snúa af óheillabraut loftslagsbreytinga. Það er eitt af okkar mikilvægustu verkefnum. Loftslagsbreytingarnar eru fyrst og fremst vegna neyslu mannkyns á jarðefnaeldsneyti. Þannig er það. (Gripið fram í.) Á norðurslóðum sjást þau áhrif skýrar en annars staðar. Hafísinn minnkar og þynnist. Jöklar eru að hopa, þeir eru að hverfa. Þetta ástand ætti að vekja okkur til umhugsunar um það í sjálfu sér að olíuhagkerfið er ósjálfbært.

Þess vegna er í raun og veru áhyggjuefni að loftslagsbreytingarnar eru svo aftur á móti kannski það sem fyrst og fremst ýtir okkur út í það kapphlaup að ná í afganginn af þessum sökudólgum loftslagsbreytinganna. Þetta er þversögn sem við verðum að horfast í augu við.

Annað atriði sem snýr kannski meira að áhættunni er sú staðreynd að á þessu svæði eru sumarstöðvar síldar, kolmunna og makríls, auk þess sem svæðið er mikilvægt fyrir loðnu. Þá verðum við að spyrja okkur: Hversu mikla áhættu er verjandi að taka við mögulega olíuvinnslu? Þá er ég bara að tala um þessa staðbundnu áhættu.

Vegna þess að hér er talað um efnahagslegan ávinning, ímynd landsins og þeirrar vöru og þjónustu sem við förum með inn á markað út um heim, til að mynda ferðaþjónustu, hvers virði er sú ímynd sem byggir á hugmyndafræðinni um hreina orku? Hvaða áhættu er verjandi að taka í því að breyta þeirri ímynd í ímynd olíuvinnsluríkis? Þetta eru nokkrar vangaveltur sem sannarlega er mikilvægt að hafa uppi (Forseti hringir.) og ég tek undir orð þeirra sem hvetja til opinnar umræðu um þessi mál. (JónG: Eftir stendur að ríkisstjórnin …)