141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

óbeinar auglýsingar hjá Ríkisútvarpinu.

425. mál
[16:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Sem betur fer hafa ekki allir sama smekk og deila ekki sama húmornum eða skopskyninu. Það sem einum finnst drepfyndið finnst öðrum ömurlega leiðinlegt eins og allir þekkja. Það er eins gott að við erum ekki öll eins að því leytinu til, því þá væri lífið líkast til eins og þegar kveikt er á ljósaskiltum í sjónvarpsútsendingu og upp koma ljósin „hlæja núna“ eða „klappa núna“ og allir fara af stað eins og ýtt sé á takka.

Því nefni ég að fyrirspurnin sem hér er á dagskrá hefur einmitt verið tekin sem dæmi um húmor eða húmorsleysi fyrirspyrjandans, þeirrar sem hér stendur, og þykir mönnum húmorinn heldur klénn. Að minnsta kosti aðdáendum Kastljóss og Hraðfrétta sem eru allmargir. Þetta er fyrirspurn um óbeinar auglýsingar hjá Ríkisútvarpinu og hún snýst ekki um húmor, smekk eða það hvað einum finnst fyndið og öðrum ekki.

Sjónvarp er gríðarlega áhrifamikill miðill. Vinsælir fréttatengdir þættir eða skemmtiþættir eru því eðlilega mjög eftirsóttir til að auglýsa vöru og þjónustu. Auglýsingar ganga nú reyndar undir nafninu viðskiptaboð, meðal annars í tveimur frumvörpum, annars vegar um Ríkisútvarpið og hins vegar um áfengisauglýsingar, sem hér liggja fyrir. Þar er skilgreiningin á duldum auglýsingum þessi, með leyfi forseta:

„Til viðskiptaboða teljast auglýsingar, […] svo og dulin viðskiptaboð sem er ætlað að þjóna auglýsingamarkmiðum og geta villt um fyrir neytanda að því er eðli þeirra varðar.“

Í löndum þar sem sjónvarpsauglýsingar eru bannaðar eða takmarkaðar eins og hér á landi, þar sem er meðal annars óheimilt að slíta í sundur dagskrá til þess að koma að auglýsingum, er hættara við því en ella að óbeinar auglýsingar rati inn í þættina sjálfa í alls kyns dularklæðum. Við þekkjum þetta öll. Stundum er það baksvið atburðarins sem um ræðir, stundum er það gosdrykkur sem stjórnandi eða viðmælandi veifar framan í áhorfendur og jafnvel er það stundum svo að upplýsingar eru gefnar í lok þáttar um hvaðan föt stjórnandans eða viðmælandans séu fengin að láni eða keypt.

Í frumvarpi um Ríkisútvarpið sem er til afgreiðslu í allsherjar- og menntamálanefnd er lögð áhersla á að auglýsingar skuli vera þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða, auk þess sem þær skuli skýrt aðgreindar frá öðru dagskrárefni.

Í þessu frumvarpi endurspeglast þannig þörf fyrir skýra lagasetningu og skýran ramma utan um auglýsingar í ríkismiðlinum. Eitt dæmi um þörf fyrir slíka afmörkun birtist undirritaðri síðastliðið haust í Kastljóssþætti og gaf tilefni til þess að leggja eftirfarandi spurningar fyrir hæstv. ráðherra um óbeinar auglýsingar:

Í fyrsta lagi: Hvaða reglur gilda um þær?

Í öðru lagi: Hvað kostar mínútan af leiknum auglýsingum í Kastljósi?

Í þriðja lagi: Hvaða lög og reglur gilda um upptökur og útsendingu á fréttum, auglýsingum og skemmtiefni frá áfengisverslunum?

Í fjórða lagi: Hvað greiddi símafyrirtækið Nova fyrir auglýsingu sem sýnd var í Kastljóssþætti þann 15. nóvember síðastliðinn?