141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ýmislegt kemur manni á óvart í þessu frumvarpi þótt sumir gamlir kunningjar gangi nú aftur. Einn af þeim er að lesa í frumvarpinu að gert sé ráð fyrir því að hinar svokölluðu rækju- og skelbætur skulu skertar um helming á þremur eða fjórum árum. Þetta mun auðvitað hafa gríðarlega mikil áhrif. Þessi breyting kemur á óvart vegna þess að hæstv. ráðherra kom vestur í Stykkishólm í fyrra til þess að greina frá því að hugmyndin væri ekki að ganga fram með þeim hætti sem boðað hafði verið í því frumvarpi sem þá var til umfjöllunar. Síðan mat fjórmenningahópurinn svokallaði það svo að slíkur samdráttur væri líklegur til að hafa í för með sér veruleg og staðbundin áhrif. Það er alveg ljóst mál að þetta mun mjög víða koma mjög illa niður. Ég nefni sérstaklega Stykkishólm sem hefur orðið fyrir miklum búsifjum vegna skerðingar á skelveiði og banni við skelveiðum. Það er alveg ljóst mál að sjávarútvegur þar hefur staðið og fallið með þeim heimildum sem hafa verið til staðar. Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að í ljósi alls þessa (Forseti hringir.) kemur það mér mjög á óvart að sjá þetta í frumvarpinu hér og nú.