141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar upphaflega var farið að deila út rækju- og skelbótum á grundvelli þágildandi laga var gert ráð fyrir því í hugum flestra, held ég, að þetta yrði mjög tímabundið ástand. Menn gerðu ráð fyrir því að rækjustofninn innfjarðar mundi rétta úr kútnum. Menn bjuggust við því þegar skelin hrundi í Breiðafirði að það ástand mundi ekki vara mjög lengi. Þess vegna horfðu menn á þetta út frá þeim sjónarhóli. Síðan voru gerðar breytingar til þess að bregðast við þeim veruleika sem við stöndum frammi fyrir núna.

Það er alveg ljóst mál að eins og sakir standa núna er fullkomin óvissa um það hvenær rækju- og skelveiðar, eða að minnsta kosti skelveiðarnar, hefjast í Breiðafirði. Þess vegna er það gríðarlegt áfall ef ætlunin er af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að keyra málið áfram í þeim anda sem hérna er verið að boða.

Það má vel vera að rétt sé sem hæstv. ráðherra segir, að ákveðinn greinarmunur sé á rækju- og skelbótunum, en það ættu að minnsta kosti að vera rök fyrir því að lækka ekki skelbæturnar (Forseti hringir.) um helming eins og hér er verið að boða. Það mun hafa mjög alvarleg áhrif eins og við komumst að raun um, fjórir þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum, sem fóru yfir þetta mál á síðastliðnu ári.