141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra minntist einmitt á kvótaþingið og var það einmitt það sem ég ætlaði að ræða við hann í seinna andsvari mínu. Það snýr annars vegar að því að þeir sérfræðingar sem atvinnuveganefnd og reyndar ráðuneytið fékk til að skoða fyrri frumvörp hafa bent á að kvótaþingið sé ekki nægilega góð leið til að styrkja byggðirnar og muni auk þess draga úr þjóðhagslegri hagkvæmni.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra af hverju það komi inn með þessum hætti. Af hverju er ekki tekið tillit til slíkra ábendinga? Eða er ríkisstjórnin einfaldlega að segja með því að leggja þetta fram í þriðja eða fjórða sinn að þeir sérfræðingar hafi ekki vit á þessum hlutum?

Það kom líka fram í vor að hefði það frumvarp orðið að lögum væri ólíklegt að kvótaþingið gæti tekið til starfa á yfirstandandi fiskveiðitímabili vegna þess að það þyrfti umtalsverðan undirbúning við að koma því á laggirnar. Það kemur reyndar fram í athugasemdum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort slíkur undirbúningur sé þá búinn núna, (Forseti hringir.) vegna þess að í frumvarpinu er talað um að gildistakan verði hér og nú. Þá veltir maður því fyrir sér hvernig það eigi að koma heim og saman ef sá undirbúningur að kvótaþinginu liggur ekki fyrir.