141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Til þess að byrja á jákvæðum nótum verð ég að segja að ég dáist að sumu leyti að þeirri þrautseigju að koma fram með svona frumvarp í þriðja sinn.

Förum aðeins yfir söguna í örstuttu máli. Við munum að hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, lagði fram frumvarp. Það má segja að það hafi hér um bil sjálfkrafa lent í tætaranum því að umsagnir um það og viðtökur almennt hvar sem var í þjóðfélaginu voru með þeim hætti að auðvitað var ekki hægt að afgreiða það. Þá gripu menn til þess ráðs að draga andann í smá tíma og svo var lagt á djúpið að nýju með frumvarp sem fór í svipað ferli. Kallað var eftir umsögnum eins og lög gera ráð fyrir á Alþingi og viðtökurnar voru mjög svipaðar, a.m.k. mjög samkynja. Í rauninni varð niðurstaðan sú, og það sáu allir, að það mál var ekki hægt að afgreiða, það var ekki efnislega tækt til þess, það hefði haft svo neikvæðar afleiðingar að menn treystu sér ekki til þess á þeim tímapunkti að afgreiða málið. Þá fór málið til skoðunar í fjögurra manna hópi fulltrúa fjögurra stjórnmálaflokka og síðan var það skoðað á vettvangi ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna.

Nú sjáum við þriðju tilraun. Það er því miður svo sérkennilegt að það er eins og menn hafi engu gleymt en ekkert lært. Þetta heitir í raun og veru að berja höfðinu við steininn því að það er verið að leggja af stað í sömu ólánsvegferðina með þetta frumvarp og farið var af stað með fyrri frumvörpin tvö sem hlutu þann illa endi sem allir muna eftir.

Það sem helst var fundið að forverum þessa frumvarps var í fyrsta lagi neikvæð þjóðhagsleg áhrif, með öðrum orðum yrði verra fyrir íslenskt samfélag ef þau yrðu niðurstaðan, í öðru lagi var á það bent að þau mundu hafa í för með sér margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir sjávarbyggðirnar í landinu — þó er mikið talað um í greinargerð og í málflutningnum að þessu frumvarpi sé ætlað að mæta sérstaklega þörfum sjávarbyggðanna — og loks var bent á að sú ákvörðun að skerða sérstaklega aflaheimildir í ákveðnum tegundum þegar aflamarkið væri komið að tilteknum mörkum mundi stuðla að verri umgengni rétt eins og menn þekkja í Norðursjónum og víða í kringum okkur.

Það sem ég á við er að ég varð nokkuð undrandi að átta mig á því þegar ég fór að lesa frumvarpið hversu litlar breytingar er í raun og veru verið að gera frá fyrri frumvörpum. Ég vil heldur ekki vera of neikvæður og verð auðvitað að viðurkenna að það er hægt að sjá breytingar frá fyrri frumvörpum. 3% klípan er a.m.k. ekki inni í þessu frumvarpi. Stillimyndin fræga er ekki inni í þessu frumvarpi. Þess vegna leyfði ég mér strax þegar frumvarpið kom fram í upphafi að gefa því svona 0,1 hærra í einkunn en þeim fyrri sem við ræddum í þinginu. En því miður var að sumu leyti líka gengið í þveröfuga átt, gagnstæða átt, í verri átt, með þetta mál.

Enn á ný sjáum við að þetta er málamiðlun, ekki milli ólíkra sjónarmiða úti í þjóðfélaginu heldur málamiðlun innan stjórnarflokkanna alveg eins og var lýst þegar málið kom fram. Fram kom að þetta mál hefði verið lagt fyrir stjórnarflokkana einhvern tímann á aðventunni. Þar nam það staðar vegna þess að ekki var skilyrðislaus stuðningur við málið innan stjórnarflokkanna. Þá var tekið til við að reyna að ná pólitískri samstöðu í þessum tveimur stjórnarflokkum. Þar eru menn auðvitað ekki með neitt annað í huga en að finna þann lægsta samnefnara sem þeir geta komið sér saman um. Niðurstaðan er þetta frumvarp.

Það er alveg ljóst mál að þetta frumvarp, verði það að lögum, mun sérstaklega bitna á þorskveiðiútgerðunum rétt eina ferðina enn. Það var eitt af einkennum hinna tveggja fyrri frumvarpa að þeim var beinlínis stefnt gegn þorskveiðiútgerðunum í landinu. Það var gert með því að viðhalda því óréttlæti sem margoft hefur verið bent á að þorskveiðiútgerðirnar hafa verið að borga meira inn í leigupottana en aðrar útgerðir. Í öðru lagi var gert ráð fyrir því að um leið og afli í fjórum tilteknum tegundum ykist upp fyrir tiltekið mark mundi hluti þeirrar aukningar fara inn í leigupotta ríkisins og það hefði náttúrlega bitnað sérstaklega á þeim þorskveiðisvæðum sem voru mjög háð þorskveiðinni og öðrum tegundum sem þar voru undir. Nú má segja sem svo að þarna sé stigið skrefið til baka að því leytinu að þessi skerðingarákvæði eiga bara við um þorskinn, en þá er auðvitað bætt um betur því að þessi skerðingarákvæði eru ekki lengur 40% heldur 50%. Þetta er mjög slæmt. Þetta mun gera það að verkum að þeir sem eru t.d. búsettir á þorskveiðisvæðunum, sem standa í ýmsum tilvikum illu heilli verr í byggðalegu tilliti, verða sem þessu nemur fyrir meira höggi. Svo er auðvitað líka, af því hæstv. ráðherra er nú fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, alveg ljóst mál að þetta fyrirkomulag dregur mjög úr hinum grænu viðhorfum. Þegar menn þurfa að taka á sig skerðingar hafa þeir gert það í góðri trú um að mega njóta þess þegar betur árar, en nú er verið að taka þann hvata út aftur.

Við sjáum að í mörgu tilliti er í þessu frumvarpi ýmsum álitaefnum vísað til framtíðar. Hæstv. ráðherra eru veittar gríðarlegar heimildir til að framkvæma lögin. Ég er ekki frá því að heldur hafi dregið úr því frá fyrri frumvörpum hæstv. ráðherra og forvera hans en þó er ýmsu vísað til framtíðar, t.d. varðandi stærðarmörk fyrirtækja, að vísu er í tilteknum greinum í frumvarpinu kveðið á um reglur varðandi stærðarmörk fyrirtækja, 31. og 32. gr. Út af fyrir sig er ég sammála því að setja ákveðið þak á stærðarmörk fyrirtækja, stóð að því á sínum tíma að það væri gert.

Hér er verið að boða breytingar frá gildandi lögum í þessum efnum. Það er verið að herða þessi ákvæði. Krosseignatengslin eru gerð virkari, má segja. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hefur verið lagt mat á það hverjar verða afleiðingar af þessu? Hvaða fyrirtæki kunna að vera þar undir? Hvaða fyrirtæki verða að bregðast við með einhverjum hætti ef þetta verður að lögum?

Sama varðar kvótaþingið. Þar er líka að ýmsu leyti vísað inn í framtíðina og hæstv. ráðherra afhent talsvert mikið reglugerðarvald. Hæstv. ráðherra vakti athygli á því hérna áðan, þegar var verið að ræða þessi mál í andsvörum, að gert væri ráð fyrir því að á kvótaþinginu mætti skilyrða hluta ráðstöfunarinnar við útgerðir sem eru staðsettar á tilteknu landsvæðum sem hefði hallað á í atvinnulegu og byggðalegu tilliti. Það er út af fyrir sig sjónarmið. Það sem vekur athygli mína í því sambandi er að þarna er um að ræða mun þrengri heimildir til hæstv. ráðherra til þess að svæðisbinda úthlutun eða framboð af kvótaþingi en áður hafði verið gert. Í frumvarpinu varðandi kvótaþingið er talað um að hæstv. ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um viðskipti með aflamark og megi þar tilgreina upplýsingar um magn og verð, hámarksmagn sem hver aðili getur boðið í og skiptingu milli tímabila. Í fyrri frumvörpum var hins vegar gert ráð fyrir því að þarna mætti líka kveða á um skiptingu milli svæða. Nú er greinilega búið að hverfa frá því.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hver er ástæðan fyrir þessu? Að vísu var harðlega gagnrýnt fyrirkomulagið sem var í fyrra frumvarpinu. Er hæstv. ráðherra með þessum hætti að koma að einhverju leyti til móts við slík sjónarmið? Engu að síður er ljóst að hæstv. ráðherra fengi talsverðar almennar reglugerðarheimildir sem þetta frumvarp mundi veita honum ef það verður að lögum.

Það sem ég tel vera einna alvarlegast í þessu frumvarpi er með hvaða hætti á að fara með það sem kallað verður fiskveiðileyfi, þ.e. leyfi til að nýta aflahlutdeild. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að það hefði átt að reyna betur að setja þetta mál í þann búning sem sáttanefndin lagði til á sínum tíma, sem var samningsaðferðin, ekki leyfisaðferðin. Það sem er þó miklu alvarlegra, að mínu mati, er að þetta ákvæði felur í sér mjög mikla óvissu. Leyfin eru ætluð til 20 ára. Þá segja margir: Er það ekki kappnóg? Er ekki alveg nóg að menn sjái að þessu leytinu til 20 ár fram í tímann? Það er hins vegar alveg óljóst hvað tekur við. Það eru enginn sjálfvirk ákvæði sem fela það í sér, eins og gert var ráð fyrir í niðurstöðu sáttanefndarinnar, að að uppfylltum tilteknum skilyrðum ættu menn að geta gengið nokkurn veginn út frá því að fiskveiðiréttur þeirra yrði endurnýjaður og þannig væri hægt að tryggja og stuðla að aukinni fjárfestingu í greininni og vissu um starfsumhverfið að þessu leyti. Nóg er óvissan samt af markaðslegum ástæðum og náttúrufarsástæðum o.s.frv.

Hér er gert ráð fyrir því að í árslok 2016 í síðasta lagi verði lagt fram frumvarp um breytingu á þessum lögum þar sem kveðið verði á um ráðstöfun nýtingarleyfa og aflahlutdeilda að liðnum þeim tíma sem er ákveðinn í 1. mgr. Það má segja sem svo að þetta geri að verkum að næstu þrjú árin verði menn í mikilli óvissu um það með hvaða hætti framhaldinu verði fyrir komið varðandi þessi leyfi. Þetta mun þess vegna hafa neikvæð þjóðhagsleg áhrif, draga úr fjárfestingu og draga úr vissunni sem menn þurfa að hafa fyrir því sem fram undan er. Þetta er að mínu mati einna alvarlegast í frumvarpinu.

Ég hef aðeins komið inn á hin byggðalegu áhrif. Mér er dálítið hulin ráðgáta með hvaða hætti er gengið fram í þessum efnum í frumvarpinu. Á annan veginn er mikið talað um það í greinargerð og ræðum að þessu frumvarpi sé ætlað að styrkja stöðu byggðanna. Svo þegar við skoðum það betur kemur á daginn að alls staðar er gert ráð fyrir að hin byggðalegu úrræði sem við höfum haft, línuívilnun, byggðakvóti, rækju- og skelbætur svo að ég taki dæmi, verði skert um helming. Það er alveg ljóst að það mun hafa mjög neikvæð áhrif fyrir ýmsar byggðir í landinu sem hafa reitt sig mikið á þau úrræði.

Ég tók saman úr skýrslu sem hæstv. fyrrverandi ráðherra lét gera um byggðakvótann. Grundarfjörður er til að mynda með 288 tonn í byggðakvóta, Snæfellsbær 355, Ísafjarðarbær 662, Skagaströnd 300, Vesturbyggð 282, Súðavík 210, Blönduós 140. Hér er gert ráð fyrir því að þessi úthlutun verði helminguð á þeim þremur árum sem taflan úr frumvarpinu nær yfir. Sama er þegar kemur að línuívilnuninni, það á að helminga hana sömuleiðis á þremur árum. Það mun bitna harðast á þeim litlu byggðarlögum sem hafa sannarlega notið línuívilnunar. Bolungarvík hefur fengið 1.000 tonna viðbótarkvóta í gegnum línuívilnun, Rif/Ólafsvík 750 tonn, Suðureyri 330 tonn og Siglufjörður 350 tonn. Það má segja sem svo að þetta frumvarp, verði það að lögum, feli í sér að veiðirétturinn í þessum byggðarlögum verði helmingaður, skertur í Bolungarvík um 500 tonn, tæp 400 tonn í Rif/Ólafsvík, Suðureyri um 160 tonn og Siglufirði um 175 tonn. Það munar um það í þessum byggðarlögum.

Hvert er þá svarið? Hvert eiga menn að leita? Jú, þá er vísað á kvótaþingið. Þá er sagt: Kvótaþingið á að bjarga þessu. Kvótaþingið sem þó mun hafa í för með sér skerðingar á aflahlutdeildum vegna þess að gert er ráð fyrir því að lækka aflahlutdeildirnar til þess að hægt sé að „fjármagna“ kvótaþingið. Fyrst mun sem sagt aflahlutdeildirnar í þessum litlu byggðum verða skertar og þær færðar inn í kvótaþingið. Eftir að búið er að skerða bæði línuívilnun og byggðakvóta er mönnum stefnt í að leigja sér aflaheimildir til eins árs í senn. Hvaða vissu hafa menn þá? Menn hafa nákvæmlega enga vissu. Eins og ég rakti hér áðan er gert ráð fyrir því að hæstv. ráðherra geti skipt þessu í tímabil. Hann getur ákveðið að hver og einn sem býður í megi bara bjóða í svo og svo mikið magn. Hann getur t.d. ekki, eins og gert var þó ráð fyrir í fyrra frumvarpi, skipt þessu niður á svæði nema með þeirri undantekningu að byggðarlög hafi orðið sérstaklega illa úti, það er orðað með einhverjum slíkum hætti í frumvarpinu, þ.e. byggðarlög sem hafi hallað á í atvinnulegu tilliti geti boðið í þessar heimildir án þess að nánar sé tilgreint hvað um sé að ræða. Það er alveg ljóst mál með öðrum orðum að það hallar á þessar byggðir. Hingað til hafa þær fengið þennan veiðirétt í gegnum línuívilnun og byggðakvóta. Nú á að lækka hvort tveggja og bjóða mönnum upp á að róa með því að leigja sér heimildir frá ríkinu í fullkominni óvissu sem er auðvitað ekki neitt svar gagnvart þeim vanda sem þessum byggðarlögum verður stefnt í.