141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:06]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessari spurningu hefði nú kannski verið eðlilegra að beina til ráðherrans en til hins óbreytta þingmanns sem fallist hefur á frumvarpið með semingi. Hv. þingmaður vísar til þeirrar gagnrýni sem fram hafi komið frá málsmetandi aðilum, minnir mig að hv. þingmaður hafi sagt. Sú gagnrýni kom fyrst og fremst fram frá hagsmunaaðilum sem voru mjög háværir í gagnrýni sinni. Margt í þeirri gagnrýni var að mínu viti misskilningur, eins og ég hef rakið fyrr í ræðum í tengslum við málið og á síðasta þingi, eða lýsti afstöðu sem var einfaldlega önnur en afstaða stjórnarflokkanna. En það breytir ekki því að komið hefur verið til móts við margt af því sem sett var fram í þeirri gagnrýni og var vissulega hlustað og mikið um þetta fjallað á fyrri þingum. Auk þess hefur verið komið til móts við sjónarmið varðandi til dæmis markmiðsgreinina, að treysta betur í sessi ákvæði um þjóðareign, ákvæði um jafnræðissjónarmið og fleira sem komið er inn í markmiðsgreinina.

Búið er að breyta líka ákvæðum sem lúta að úthlutun nýrra tegunda, ég man nú ekki númerið á greininni, og búið er að stækka leigupottinn þannig að frumvarpið hefur tekið talsverðum breytingum frá því sem var á síðasta þingi. Klípan er dottin út. Ég sá nú svolítið eftir henni en hún er dottin út. Dæmi um efnisatriði sem komið hefur til móts við athugasemdir hinna fjölmörgu umsagnaraðila en umsagnirnar voru ekki allar á eina lund, þær komu bæði frá hagsmunaaðilum, sem voru mjög harðir í gagnrýni sinni, (Forseti hringir.) en þær komu líka frá aðilum sem vildu sjá frekari (Forseti hringir.) breytingar í átt til þess sem margir stjórnarþingmenn hefðu viljað sjá.