141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Fyrr í dag áttum við sameiginlegan fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og allsherjar- og menntamálanefnd með nokkrum aðilum vegna komu bandarísku alríkislögreglunnar til Íslands sumarið 2011. Fyrir fundinn komu Kristinn Hrafnsson blaðamaður, ríkissaksóknari, ríkislögreglustjóri og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Fundurinn var mjög gagnlegur og upplýsandi um málið sem hefur verið nokkuð þokukennt og deilt um í fjölmiðlum, sérstaklega hvað varðar aðkomu innanríkisráðuneytisins að málinu.

Það kom skýrt fram á fundinum í morgun að ráðuneytið hefur lögbundnu hlutverki að gegna í ferlinu. Það er mitt afdráttarlausa mat eftir fundinn og yfirferðina að aðkoma ráðherra og ráðuneytisins hafi verið fullkomlega eðlileg, ekki með neinum hætti inngrip í rannsókn heldur var ráðuneytið einungis og einvörðungu að uppfylla sitt lögbundna hlutverk í ferlinu sem er að afgreiða beiðnina um réttarheimildina. Ráðuneytinu bar einnig að tryggja að rannsóknin væri í samræmi við og rúmaðist innan réttarbeiðninnar sem veitt var, en það má taka fram að á fimm ára tímabili hafa borist 203 réttarbeiðnir erlendis frá og 54 þeirra hafa verið afgreiddar áfram. (Gripið fram í.) Þegar í ljós kom að um var að ræða rannsókn á tveimur málum, annars vegar yfirvofandi tölvuárás á stjórnkerfi Stjórnarráðsins og hins vegar sakamálarannsókn á hendur Wikileaks, greip ráðuneytið inn í með eðlilegum og réttmætum hætti.

Fundurinn var sem sagt í alla staði mjög upplýsandi í þessu máli sem hefur verið deilt um á síðustu dögum. Það eina sem eftir stóð að var ekki eðlilegt að mínu mati var hvernig einstaklingur, Íslendingur í eintölu, var í yfirlýsingu ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra bendlaður við þessa rannsókn án þess að honum eða öðrum væri greint frá því (Forseti hringir.) með hvaða hætti rannsóknin færi fram og hefði staðið yfir í eitt og hálft ár.