141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns á þessari skiptingu á pottinum á milli ríkis og sveitarfélaga annars vegar og ákveðins þróunarsjóðs hins vegar. Ég er algjörlega á móti þessu, það kom skýrt fram í ræðu minni. Ég er þeirrar skoðunar að þetta ætti að renna í ríkissjóð eða einhvers konar auðlindasjóð. Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti tekið undir það sjónarmið, sem ég hef lengi haldið fram, að menn ættu þá að borga auðlindagjald af öllum auðlindum hvort sem um væri að ræða heitt vatn eða kalt, laxveiði eða sjávarútveg eða hvað sem er. Það færi þá í einhvers konar auðlindasjóð sem væri í höndum ríkisins en yrði ekki skipt niður hingað og þangað, á mismunandi veg eftir því sem verið er að innheimta — í þessu tilviki í gegnum kvótaþingið, ekki í gegnum það sem snýr að veiðileyfagjaldinu. Ég spyr ekki síst í ljósi umsagnar frá fjármálaráðuneytinu þar sem segir að þetta sé á mjög gráu svæði gagnvart stjórnarskránni.