141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:17]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi málflutningsins sem þingmenn Framsóknarflokksins viðhafa núna í umræðunni langar mig aðeins að hressa upp á minni þeirra, sérstaklega af því að vakin var athygli á þeim fyrirvara sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lagði fram við skýrslu samninganefndarinnar hér um árið. Með leyfi forseta vil ég fá að lesa upp úr völdum köflum í fyrirvara þingmannsins. Þar ræðir hann um samningaleiðina og segir:

„Telur undirritaður að fara eigi þá leið en vill taka fram að gildistími samninga um nýtingarrétt verður að vera hæfilega langur“ og nefnir hann í því sambandi 20–40 ár. Síðan segir þingmaðurinn að réttindi og skyldur handhafa veiðiréttar sem og ríkisvaldsins verði að vera skýr í samningunum. Meginatriði samningaleiðar felist því í samningum við rétthafa um afnotarétt af auðlindinni. Hann segir svo: „Tel ég rétt að í stjórnarskrá eigi að setja skýrt ákvæði um þjóðareign. Undirritaður tekur undir tillögu um að innan aflamarkskerfisins verði tveir pottar.“ Síðan útskýrir hann að sá minni skuli halda utan um byggðaþarfir, bætur og ívilnanir og segir: „Markaður með leiguheimildir þar sem verðmyndun er gagnsæ og sanngjörn getur ýtt undir endurnýjun og fjölbreytni í greininni.“

Nú vil ég spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason, flokksbróður hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar: Hvar hafa dagar framsóknarmanna lit sínum glatað í því máli? Hvar urðu sinnaskiptin í málinu? Mér finnst eins og menn tali sér alveg þvert um geð og í hreinni andstöðu við þær þungu áherslur sem lagðar voru (Forseti hringir.) í nefndinni um að samningaleiðin skyldi farin með þeim megináherslum sem ég hef nú rakið. (Gripið fram í: Fimm þúsund tonna leigupotta …)

(Forseti (SIJ): Forseti vill geta þess að enn og aftur hefur klukkan bilað.)