141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[20:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir ræðuna. Ég er með nokkrar spurningar sem ég mundi vilja beina til þingmannsins. Það mátti skilja það á ræðu hans að flestallt væri ómögulegt við þetta frumvarp. Má túlka það þannig að afstaða Sjálfstæðisflokksins gagnvart breytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu sé sú að ekki eigi að breyta neinu eða eru einhverjar tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur varðandi það hvernig best væri að bæta kerfið, sem kom þó fram í máli þingmannsins að væri ekki fullkomið, það mætti bæta? Hvað er það þá nákvæmlega sem mætti gera betur?

Ég vildi sérstaklega beina athygli þingmannsins að bréfi sem barst fyrir nokkru frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda til okkar þingmanna þar sem spurt var: Hvað með réttlátt samkeppnisumhverfi í greininni? Hefur hv. þingmaður kynnt sér þá bókun sem fylgdi skýrslu sáttanefndarinnar svokölluðu sem Guðbjartur Hannesson, núverandi hæstv. velferðarráðherra, leiddi þar sem meðal annars var fjallað um fjárhagslegan aðskilnað milli veiða og vinnslu og að markaðsverð yrði látið ráða í beinum viðskiptum með fisk?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað mjög mikið fyrir samkeppni og talið mjög mikilvægt að láta markaðinn ráða sem víðast. Hver er afstaða hv. þingmanns og flokks hans gagnvart ábendingum og óskum frá til dæmis Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og VM, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, varðandi þetta? Ég vona að þingmaðurinn kannist við þessar hugmyndir.