141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki að þjóðkjörnir alþingismenn Íslendinga hafi neitt betra að gera á þessu miðvikudagskvöldi en að ræða stjórnskipan landsins, hvaða ályktanir eigi að draga af reynslu undanfarinna ára og að hvaða niðurstöðu menn geti komist í málinu. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að stjórnarliðar hafa tekið virkan þátt í umræðunni og ég held að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sé að rugla við sína eigin stjórnartíð í landinu þegar hann talar um þátttöku stjórnarliða í þessari umræðu.

Ég verð líka að mótmæla yfirlýsingu nýs varaformanns Framsóknarflokksins um að þingleg umræða verði málinu ekki til neins gagns. Auðvitað hlýtur það að verða málinu til gagns að við ræðum það hér og ef það skortir eitthvað á viðveru stjórnarliða í salnum er ég þess fullviss að við sitjum þá á skrifstofum okkar eða í nærliggjandi húsum [Kliður í þingsal.] og fylgjumst af alhug með þeirri umræðu (Forseti hringir.) sem hér fer fram.