141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar þessi umræða um frumvarp að nýrri stjórnarskrá hefst núna tek ég eftir að hér er húsfyllir sem undirstrikar greinilega það mat þingmanna að þetta sé það brýnasta sem við þurfum að takast á við á þessari stundu, þetta sé það sem þjóðin kallar eftir, þetta sé það sem þjóðarviljinn endurspeglar, þetta sé það sem alþingismenn sjálfir telja augljóslega að skipti mestu máli til að takast á við þau verkefni sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir.

Ég vek athygli á því að klukkan er í ólagi því að ég á að vera með tvöfaldan ræðutíma eins og við vitum.

Virðulegi forseti. Við erum hins vegar í dálítið sérkennilegri stöðu með þetta mál. Ég held að enginn velkist lengur í neinum vafa um að málið er algjörlega vanbúið. Það er ekki þannig í stakk búið að í raun sé auðvelt að ræða það af einhverju viti. Ég held að öllum sé alveg ljóst að um það mál sem við ræðum hér, með þeim breytingartillögum sem hv. meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur kynnt og liggja líka til grundvallar þessari umræðu, verður ekki núna sagt síðasta orðið.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að spá neinu um það hvort þetta mál verður klárað. Við heyrum mjög skiptar skoðanir um það í þinginu. Við sjálfstæðismenn hvöttum strax frá upphafi til þess að við reyndum að marka okkur svið sem við gætum náð saman um og síðan mögulega í framhaldinu búið til eitthvert fyrirkomulag sem við gætum öll lagt traust okkar á um það með hvaða hætti við ynnum málið áfram á næsta kjörtímabili.

Vitaskuld blasir það við, sérstaklega núna þegar febrúar er að verða hálfnaður, þegar kannski 14–15 þingdagar eru eftir, að ef við ætlum að vinna þetta mál svo sómi sé að og hagsmunir þjóðarinnar hafðir að leiðarljósi verður það ekki gert á þeirri hraðferð sem núna er verið að boða í þessu máli.

Ég tek líka eftir því að jafnvel hörðustu talsmenn frumvarpsins og þeir sem hafa helst talað fyrir því að ljúka því heildstætt þannig að frumvarpið eins og það var lagt fram, með þeim breytingartillögum sem nú liggja fyrir, verði afgreitt í heild sinni, viðurkenna að málið muni taka breytingum. Það sem er athyglisvert í því sambandi er að þeir hafa sagt að þær breytingar muni gerast líka undir þessari umræðu eftir að málið er komið inn í þingið, eftir að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur skilað breytingartillögum sínum, eftir að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur komist að niðurstöðu eftir efnislega umfjöllun sem þó var allt of rýr í roðinu.

Með öðrum orðum er öllum ljóst að eins og málið er statt núna, eins og þetta er allt saman í pottinn búið, erum við hérna með gjörsamlega vanbúið mál. Það væri kannski ekkert mjög alvarlegt ef um væri að ræða eitthvert léttavigtarmál en við erum að tala um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem menn settu árið 1944 með tilstyrk hér um bil allra atkvæðisbærra Íslendinga. Við ætlum að leggja þá stjórnarskrá til hliðar og taka upp nýja samkvæmt þeim áformum sem liggja fyrir hér í frumvarpinu og breytingartillögum þó að öllum sé orðið ljóst, eins og ég var að rekja, að málið er efnislega algjörlega vanbúið.

Það er fullkomin ástæða fyrir okkur til að hafa mjög miklar áhyggjur af þessu. Við ræddum hérna í dag aðeins um skýrslu Feneyjanefndarinnar sem var kynnt okkur þingmönnum fyrir fáeinum dögum. Það liggur fyrir bráðabirgðaskjal frá Feneyjanefndinni á ensku, en ég nefndi áðan að ég hefði talið að við ættum að sýna hvert öðru, tungumáli okkar og stjórnarskránni þá virðingu að við værum öll jafnsett í þessum sal til að fjalla um þær efnislegu ábendingar sem koma fram í álitinu.

Það er tæknilega flókið úrlausnarefni að búa til texta í stjórnarskrá. Hefði þá ekki verið eðlilegt að doka við eftir því að þýðing á þessu plaggi lægi fyrir? Erum við ekki með sérstaka þýðingamiðstöð á vegum ríkisins sem hægt væri að ræsa út og biðja menn að þýða kafla og kafla, skipta þeim á milli sín ef mönnum lægi einhver ósköp á að taka þessi mál til umfjöllunar?

Ég er búinn að renna í gegnum þetta plagg eins og það liggur fyrir á enskri tungu og hef svo sem ekki átt í neinum óskaplegum vandræðum með það. Jafnvel þó að við hefðum þann texta fyrir framan okkur á íslenskri tungu blasir við að þetta er bráðabirgðaniðurstaða. Þetta er ekki endanleg niðurstaða Feneyjanefndarinnar. Hún slær gríðarlega marga varnagla. Hún segir til dæmis framarlega í skjalinu að nefndin treysti sér ekki til að fullyrða að það útskýringaskjal sem nefndinni var sent frá lagaprófessor nægi til skýringa á frumvarpinu.

Með öðrum orðum játa nefndarmenn strax í upphafi plaggsins að þeim sé mikill vandi á höndum við að tjá sig og túlka einstakar efnisgreinar vegna þess að þeim er ekki algjörlega ljóst að skilningur þeirra sé réttur eða að þær forsendur sem þeir hafa í höndunum gefi þeim færi á því að draga þær ályktanir sem þeir þurfa að draga af texta eins og þessum.

Þeir vekja líka athygli á því að það sé mjög mikilvægt að í svona skjali sé innbyrðis samræmi. Þeir vekja athygli á ýmsum veikleikum sem koma þarna fram, t.d. í sjálfri stjórnskipuninni, og það hafði örugglega áhrif á ýmsa hv. þingmenn stjórnarliðsins sem hafa talað mjög fyrir þessu máli, eins og til að mynda hv. þm. Skúla Helgason sem vakti athygli á því áðan að skynsamlegra væri að leggja til hliðar öll þessi álitaefni og sjá hvort við gætum náð saman um færri mál sem við treystum okkur til að vinna á tiltölulega skömmum tíma.

Vandi málsins í þessu sambandi er hins vegar sá að vandamálið vex. Það vex og það vex. Það verður stöðugt meira vegna þess að tíminn styttist og vandi okkar við að takast á við einstök afmörkuð verkefni er sá að einn góðan veðurdag verður það ekki hægt. Þá sjáum við að staðan sem kemur upp er dálítið kunnugleg, þegar menn hafa ætlað sér um of endar það með því að þeir ná engu fram sem þeir eru í raun sáttir við. Það er enginn sáttur við þetta plagg eins og það liggur fyrir.

Flutningsmenn plaggsins og breytingartillagnanna (Gripið fram í: … mjög sátt við þetta.) eru þeirrar skoðunar að þetta mál þurfi að breytast, þetta sé síkvikt, það þurfi að þroskast sem minnir mann á barnagæluna um eplin og perurnar sem vaxa á trjánum og þroskast og detta svo niður. Ég held að það sé svolítið að henda þetta mál, það er að detta niður. Við sjáum það smám saman þroskast með því að stöðugt fleiri ábendingar berast, gildar ábendingar fólks sem hefur sérþekkingu á málinu, og þá verður það stöðugt veikara. Það er áhyggjuefni að núna, þegar við erum í þeirri stöðu að sérfræðingar eru smám saman að vekja athygli okkar á fjölda mála sem þurfi að skoða betur, er brugðist fremur illa við.

Í síðustu ræðu við 1. umr. málsins flutti hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til dæmis tölu um að það væri kannski ekki ástæða til að taka allt of mikið mark á sérfræðingum, hlutverk okkar stjórnmálamanna væri að vega og meta ýmislegt af því sem sérfræðingarnir legðu fram og það væri okkar að hafa lokasvar. Rétt er það, en ef við viljum vinna málið efnislega vel og vanda okkur hljótum við að minnsta kosti að byggja á þeim gögnum sem við teljum áreiðanlegust. Er ekki líklegast að þau gögn komi úr ranni þeirra sem fást við það dagana langa að velta fyrir sér, skoða og bera saman álitaefni eins og þau sem velt er upp í þessu stjórnarskrárfrumvarpi? Þarna erum við nákvæmlega stödd. Við erum ekki komin lengra.

Öllum sérfræðingum sem hafa tjáð sig um þetta mál ber saman um að það sé mikill veikleiki við það að ekki hafi farið fram neitt heildstætt mat á afleiðingum þessa frumvarps verði það að lögum. Við getum hvert fyrir sig reynt að draga einhverjar ályktanir af þessu, sagt sem svo að afleiðingarnar verði þessar og hinar og svo framvegis, en þetta heildstæða mat hefur ekki farið fram. Síðast kom þetta fram í máli umboðsmanns Alþingis sem kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og skilaði mjög ítarlegri greinargerð þar sem hann vakti máls á því að við værum ekki búin að vinna grundvöllinn, það að við gerum okkur grein fyrir og áttum okkur á því á hvaða lagabreytingar þetta kallar.

Til dæmis var vakin athygli á því í einhverri umsögninni, sem ég man ekki lengur hver átti höfundarréttinn að, að nýsamþykkt lög um fjölmiðla, hygg ég að það hafi verið, og upplýsingaskyldu og skylda hluti væru í ósamræmi við önnur ákvæði sem getur að líta í þessu frumvarpi um stjórnarskrána. Hefur verið lagt mat á það? Hefur það verið skoðað? Telja menn æskilegt eða nauðsynlegt eða kannski neikvætt að breyta þeim lögum ef þessi texti stjórnarskrárinnar yrði samþykktur og yrði þá grundvöllur sem önnur lagasetning yrði að byggja á?

Vitaskuld þyrfti slíkt heildstætt mat að fara fram. Það hefur ekki gerst og vandinn í því að leggja núna á þetta heildstæða mat er meðal annars sá að við erum í þeirri stöðu að málið er síkvikt, það er að taka breytingum. Það tekur breytingum undir umræðunni. Eins og við vitum liggja stóru drættirnir í lagasetningu jafnan fyrir, þó að það sé ekki algilt, eftir 2. umr. og þær breytingartillögur sem þá eru boðaðar. Það þekkjum við sem eðli umræðunnar og þess vegna er gert ráð fyrir því í þingsköpum Alþingis að hún sé lengri og ítarlegri til þess að við getum þá rætt þessi mál út í hörgul eins og við þurfum núna að gera.

Vandinn í þessu máli er hins vegar sá að það er stöðugt að breytast. Þeir sem núna vildu setjast niður og leggja heildstætt mat á þetta frumvarp væru undirorpnir því að í raun og veru hefur verið boðað að það þurfi að gera verulegar breytingar til viðbótar. Feneyjanefndin bendir á ýmislegt og hér hefur formaður nefndarinnar til að mynda sagt að sitthvað sé þar nýtilegt sem menn gætu notað til að vinna frekari breytingar á málinu. Það kallar aftur á að nýtt heildstætt mat sé gert til þess að við gerum okkur grein fyrir hvað hefði breyst og hvað kallaði síðan á aðrar breytingar á annarri löggjöf.

Úr því að farin var sú leið að leita út fyrir landsteinana til Feneyjanefndarinnar um álit á þessu stjórnarskrárfrumvarpi hefði vitaskuld verið eðlilegast, ef menn hefðu viljað sýna metnað og umhyggju fyrir stjórnarskránni og afleiðingum hennar, að menn hefðu kosið að bíða, ekki bara eftir bráðabirgðaálitinu heldur hinu endanlega áliti til þess að geta meðal annars gert sér grein fyrir því til hvers það mundi leiða. Eins og ég nefndi áðan er í bráðabirgðaálitinu frá Feneyjanefndinni nefnilega sleginn sá varnagli að það sé mjög örðugt að slá í gadda niðurstöðu um frumvarpið vegna þess að menn eru ekki vissir um að þau fylgigögn, sá skýringartexti sem sendur var með, séu endilega fullnægjandi til að nefndarmenn geti talið hann nægjanlegan til skýringar á frumvarpinu í heild sinni.

Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að fara nokkuð ítarlega yfir nokkur efnisatriði í þessu frumvarpi. Ég gerði það í fyrstu ræðu minni um þetta mál, þá fór ég yfir nokkur atriði sem sneru að vinnumarkaði, að ýmsum velferðarþáttum frumvarpsins og benti á mjög marga ágalla í því. Þar studdist ég meðal annars við álit aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins sem hafa miklar áhyggjur af því að eins og frumvarpið liggur núna fyrir kunni það að leiða til þess að við umturnum öllum okkar íslenska vinnumarkaði. Þarna er gott dæmi um það hvernig við hefðum þurft að leggja á þetta raunverulegt mat.

Virðulegi forseti. Það nægir mér satt að segja ekki að sérstakir áhugamenn um þetta frumvarp afgreiði svona athugasemdir bara út af borðinu og segi: Þetta er ekki svona, við skiljum þetta ekki svona. Eftir stendur réttarleg óvissa og það dugar heldur ekki að reyna að setja undir þennan leka með því að skrifa einhver vel meinandi orð í nefndarálit. Dómstólar munu líta á textann sjálfan. Dómstólar munu freista þess að skilja hvað orðanna hljóðan þýðir þegar þeir velta fyrir sér hvort verið sé að setja íslenskan vinnumarkað upp í loft með þessum texta. Í 25. gr. stjórnarskrárfrumvarpsins segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma. Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.“

Mat aðila vinnumarkaðarins er að þetta fyrirkomulag boði endalok þess vinnuréttarfyrirkomulags sem við höfum búið við áratugum saman, fyrirkomulags sem mikil barátta stóð um á fyrri hluta 20. aldar. Verkalýðsbaráttan í öndverðu snerist um þetta, réttinn fyrir verkamenn til að safnast saman í félög og semja fyrir sína hönd við atvinnurekendur. Nú er að mati Feneyjanefndarinnar verið að kollsteypa því fyrirkomulagi og þeirri grundvallarhugsun sem stjórnmálin snerust að mörgu leyti um á sínum tíma en snúast ekki lengur um á Íslandi. Um þetta var tiltölulega góð sátt.

Þegar svona alvarlegar athugasemdir eru settar fram dugar ekki, með fullri virðingu fyrir þeim ágætu einstaklingum sem skipa meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að þeir skrifi niður á blað sitt og sendi sem nefndarálit að þeir hafi allt aðra meiningu um þetta mál. Óvissan verður til staðar, og hvað gerist þá? Einhver eða einhverjir munu að sjálfsögðu láta reyna á málið úr því að óvissan er til staðar. Við skulum ekki gleyma því að þau sjónarmið eru uppi á Íslandi að þetta norræna fyrirkomulag sem við höfum innleitt sé ekkert endilega svo gott. Margir telja það böl að verkalýðsfélög séu veik. Margir telja til dæmis að bandaríska fyrirkomulagið sem gæti þá mögulega leitt af þessu hérna sé miklu betra. Þetta getur verið spurning um einstaklingsfrelsi, um rétt manna og svo framvegis, eins og verið er að setja inn í þennan texta. Þess vegna verður að mínu mati að rýna svona texta miklu betur. Þetta dæmi sem ég er búinn að nefna nú er til viðbótar öðru sem ég nefndi á handahlaupum áðan og vekur upp miklar efasemdir um að við séum á réttri leið. Hér hefði þurft að fara fram rækileg vinna um þennan þátt og ég er svolítið undrandi á því hvað umræðan um þennan þátt málsins hefur verið léttvæg.

Þegar svona alvarlegum mótbárum um málið er hreyft hefði ég til dæmis haldið að þá risi hér upp fjöldi fólks og segði: Nei, bíddu nú við, hér er í húfi fyrirkomulag á vinnumarkaði sem hefur viðgengist á Íslandi áratugum saman, það er orðin um það þverpólitísk sátt. Við ætlum ekki að breyta því. Ef einhver minnsti vafi leikur á þurfum við að slá þetta í gadda í textanum sjálfum.

Ef það er meining, sem ég efast ekki um, meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hann vilji ekki breyta vinnumarkaðsfyrirkomulaginu eins og hann hefur sett inn í sína texta verða menn að skrifa það skýrt í lagatextann sjálfan þannig að ekkert fari á milli mála. Menn verða að leita af sér allan grun í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Þetta er bara enn eitt dæmið um að málið er vanbúið eins og allir viðurkenna núna, líka þeir sem bera (Forseti hringir.) það fram, líka þeir sem eru áhugasamir um að það nái fram að ganga.