141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt að svara þeim spurningum sem fram eru settar. Ég tel að í því frumvarpi sem verða á að lögum á þessu þingi eigi að koma til móts við allar þær spurningar sem þjóðin svaraði. Ein þeirra var hvort leggja ætti tillögu stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Ég hef aldrei talið að þær tillögur eigi að verða óbreyttar að lögum. Ég tel að þær eigi að fá meðhöndlun í nefnd og hljóta þar blessun eða vera gerðar breytingar á þeim eftir atvikum og eftir því sem umsagnir sérfræðinga gefa tilefni til, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir.

Hvað varðar breytingar á stjórnarskránni tel ég heppilegra að þing og síðan þjóðaratkvæðagreiðsla staðfesti breytingu á stjórnarskrá frekar en tvö þing en ekki þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég tel að betra sé að þjóðin komi að málinu með beinum hætti heldur en þingið í tvígang.

Hvað varðar sáttina um gildandi stjórnarskrá verð ég bara að leiðrétta hv. þingmann. Það er engin sátt um gildandi stjórnarskrá. Í gildandi stjórnarskrá eru engar heimildir fyrir almenning til að ráða málum til lykta í allsherjaratkvæðagreiðslu sem almenningur sjálfur knýr fram. Þar er aðeins að finna málskotsrétt forseta. Það er engin sátt um það fyrirkomulag. Rík krafa er um það í samfélaginu að almenningur eigi stjórnarskrárvarinn rétt á því að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Engin sátt er um það í íslensku samfélagi að ekki sé ákvæði um þjóðareign á auðlindunum í gildandi stjórnarskrá. Það er heldur engin sátt um fjölmörg ákvæði í stjórnarskránni, kannski ekki síst þau hin óskýrustu sem deilur hafa verið um og óvissa um hvernig eigi að túlka.

Því er það einhver goðsögn eða kannski bara misskilningur að einhver sérstök sátt sé um gildandi stjórnarskrá. Það er bara alls ekki.