141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og góða ræðu. Mér fannst ýmislegt athyglisvert í henni og er ekkert ósammála henni að öllu leyti. Ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði hv. þingmanns að um breytingar á stjórnarskrá þurfi að skapast víðtæk sátt.

Ég vona að ég hafi ekki misskilið hana, mér heyrðist hún samt segja að helst af öllu vildi hún hafa núverandi ákvæði í gildi um breytingu á stjórnarskrá. Þess vegna leikur mér forvitni á að vita, ef ég gef mér að hún sé sáttari við þá leið sem fara þarf þar, í gegnum tvö þing og svo þjóðaratkvæðagreiðslu eins og í mannréttindakaflanum, af hverju hún getur þá a.m.k. ekki sæst á að sú leið verði farin frekar en sú sem er farin í dag. Það hlýtur alla vega að veita þjóðinni meiri aðkomu að málum. Í skýringum stjórnlagaráðs segir, með leyfi forseta:

„Í stjórnlagaráði voru höfð uppi sjónarmið þess efnis að sá möguleiki ætti að vera fyrir hendi að breyta stjórnarskrá án þingrofs. Reynslan hefur verið sú að kosningar sem haldnar eru í kjölfar slíks þingrofs snúist ekki um inntak breytinganna. Að auki er ríkur vilji fyrir því að stjórnarskrárbreytingar fari í þjóðaratkvæði.“

Geta menn ekki alla vega sæst á, ef þetta verður einfaldað og bara ein aðferð notuð, að það verði þá frekar farið í þá sem gildir um 2. mgr. en þá sem gildir núna?