141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:57]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mikilvægt sé að við berum fulla virðingu fyrir þeirri vinnu sem hefur átt sér stað í fagnefndum þingsins núna mánuðum saman. Allar fagnefndir þingsins hafa farið í gegnum þetta plagg og það er fordæmalaust, það hefur aldrei gerst áður. Menn hafa kallað til sérfræðinga í öllum þeim greinum sem undir hafa verið í þessu frumvarpi og lagt fram ítarleg nefndarálit með athugasemdum, ábendingum og breytingartillögum. Það er nægur efniviður til að fara í gegnum í 2. umr. og mjög mikilvægt að gefa því tilskilinn tíma.

Síðan hefur alltaf staðið til að álit Feneyjanefndarinnar kæmi til sérstakrar umræðu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd milli 2. og 3. umr. og yrði síðan reifað hér í lokaumræðu málsins. Það er að mínu mati fullkomlega eðlileg tilhögun á þessari vinnu enda væri annað lítilsvirðing við þá vinnu sem staðið hefur yfir í fagnefndum þingsins síðan í nóvember.