141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít ekki svo á að við þingmenn séum að rífast um þetta mál. Við erum að færa rök fyrir málinu sem eiga vel heima í því óvandaða ferli sem ríkisstjórnarmeirihlutinn setti það í í upphafi.

Þar sem þingmaðurinn tók kosningakaflann sérstaklega fyrir í ræðu sinni skulum við fara aðeins yfir hann. Þar er lagt til að tekið verði upp persónukjör, það er verið að taka upp jafnt vægi atkvæða, það er jafnvel verið að gera landið að einu kjördæmi o.s.frv. Svo er hnykkt á því í lok greinarinnar að þegar kjósandinn er búinn að fara í gegnum allt þetta ferli með því að kjósa á kjördag þá skyndilega kemur lokamálsgreinin sem hljóðar á þann hátt að tryggt skuli að konur og karlar njóti jafnræðis í hvívetna eftir kosningarnar. Því spyr ég þingmanninn: Er ekki svolítið ankannalegt að setja svona ákvæði inn í kosningakaflann þar sem kjósandinn fer raunverulega í það ferli sem ég fór yfir og (Forseti hringir.) svo á að tryggja jafnan rétt kvenna og karla þegar búið er að kjósa? Er þetta ekki brot á jafnræðisreglum?