141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við gerð þessa stjórnarsáttmála eða samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs náðist samstaða um ákveðið verklag í þessum efnum.

Hér segir, svo að ég endurtaki það, með leyfi forseta:

„Varnarmálastofnun verði endurskoðuð“ — það hefur nú verið gert gott betur, hún var lögð niður — „sem og loftrýmisgæsla …“ eins og ég las hér áðan. Þarna er vísað til áherslna í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland og þar er í rauninni sagt að tvenns konar sjónarmið séu uppi hvað þetta varðar, annað sem kenna má við haukana, þ.e. að Ísland muni ávallt skipta máli á spennu- og átakatímum og þess vegna verði alltaf að vera hér hæsta öryggisstig í gangi, og hins vegar, sem eru þá dúfurnar svo ég haldi mig við fugla himinsins, að þá hljóti að verða að skjóta stoðum undir aðra öryggisþætti en þetta hefðbundna varnarkerfi.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Á hvoru málinu er hann? Hefur hann sem sagt skipt um skoðun og vísað þessu frá ríkisstjórninni, (Forseti hringir.) endurskoðun á loftrýmisgæslu? Og þá með hvaða rökum?