141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mikið vildi ég að hv. þingmaður hefði meira sjálfstraust fyrir hönd Íslands. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Þessi var góður.) Hugarfar hans er það að það sé gefið fyrir fram að Ísland hljóti að tapa; og það er rétt sem hv. þingmaður segir þegar hann heldur því fram að ég hafi fulla trú á málstaðnum. Já, ég geng til þessara samninga fullur af kjarki og fullur af styrk hinna íslensku röksemda. Hv. þingmaður virðist hins vegar ekki trúa á sín eigin rök. Hann segir að ómögulegt sé að ná fram sérlausnum eins og til dæmis (Gripið fram í.) varðandi fiskveiðar. Ef hann hefur rétt fyrir sér þá bara kemur það í ljós þegar við göngum til samninga. En hv. þingmaður vill ekki leyfa mér að ganga til samninga. Hvers vegna? Getur verið að ástæðan sé sú að hann óttast að ég hafi rétt fyrir mér en hann hafi rangt fyrir sér?

Að lokum rifjast upp fyrir mér, þegar við erum að tala um aðlaganir og það hvernig hægt er að ná fram lausnum, viðtal sem ég heyrði í gærkvöldi í Speglinum, það var við Daða Má Kristófersson. Það var verið að spyrja þann mæta fræðimann út í þær breytingar sem hafa orðið á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Hann svaraði efnislega svona í lok viðtalsins: Ef ég á að vera brútal þá eru þær breytingar þess eðlis að hægt er að tala um að Evrópusambandið sé að aðlaga sig íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.