141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

uppbygging á Bakka.

[13:39]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Líklegt er að talan sem hv. þingmaður nefndi stefni í að vera ekki fjarri lagi hvað varðar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum, lóðaframkvæmdum og öðrum slíkum innviðum sem lengi hefur legið fyrir að þyrftu að koma til á svæðinu, og var undirrituð viljayfirlýsing strax vorið 2011 um það. Til að opna þarna nýtt framtíðariðnaðarsvæði þarf að koma til tiltekin uppbygging innviða á svæðinu, eins og reyndar hefur átt við í flestum ef ekki sambærilegum tilvikum á undanförnum árum og þekkt er.

Varðandi stuðninginn er hann annars vegar fjárfesting í innviðunum og hins vegar ívilnanir sem falla þá til á fyrstu 10 árunum eftir starfsrækslu verksmiðjunnar, en á móti koma auðvitað þær tekjur og þau umsvif sem af því leiða. Þetta mál er skoðað algerlega sjálfstætt og er þannig um það búið að ekki verður ráðist í neinar framkvæmdir þarna af hálfu ríkis eða sveitarfélags fyrr en ljóst er að af framkvæmdunum verður þannig að hér er farið í hlutina (Forseti hringir.) í þeirri röð. Ekki munu falla til teljandi útgjöld á þessu ári nema líklegt er að einhver undirbúnings- og hönnunarkostnaður verði. Það verður þá bara að skoða sem sjálfstætt mál í þessu tilviki.