141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

grásleppuveiði.

[13:53]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp vegna málefna grásleppukarla, mér leyfist vonandi að nota það heiti í pontu Alþingis, hringinn í kringum landið sem eru nokkur hundruð og telja að að sér sé sótt vegna minni aflaheimilda fram undan.

Það á að byggja aflaráðgjöfina, ef ég skil það rétt, á upplýsingum eftir togararall sem fer fram að mestu leyti eftir 1. mars. Það togararall eins og flest önnur togararöll fer að mestu leyti fram utan tólf mílna, 80% af rallinu fer yfirleitt fram utan tólf mílna. Grásleppusjómenn segja sjálfir að á þeim tíma sé grásleppan komin upp í grunnslóð, langt inn fyrir tólf mílurnar, þannig að sú mæling muni ekki meta það magn sem er í sjónum hverju sinni. Þeir segja fullum fetum að engan mun sjái á grásleppunni núna í sjónum og í fyrra eða hittiðfyrra þegar ágæt veiði var. Nú er gert ráð fyrir að sóknin verði 20 dagar í staðinn fyrir 50 og er því um mikinn samdrátt að ræða.

Í annan stað nefna þeir að fiskurinn sjálfur hafi verið til sölu á Kínamarkaði á undanförnum árum og ef þeir geti ekki sinnt þeim markaði að ráði muni hann hverfa þeim úr greipum. Hér eru miklir hagsmunir í húfi því að 70 kr. fást fyrir kílóið af grásleppunni sjálfri fyrir utan hrognin. Þessum hluta var oft á tíðum hent þannig að hér hefur nýr markaður verið að rísa á undanliðnum árum og er í hættu ef sótt verður á þennan hátt að greininni.

Þess vegna spyr ég hæstv. atvinnuvegaráðherra hvort hann muni að (Forseti hringir.) einhverju leyti koma til móts við gagnrýni grásleppukarla hringinn í kringum landið.