141. löggjafarþing — 83. fundur,  19. feb. 2013.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[14:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það segir kannski sína sögu að í gær fékk ég fjögur fundarboð á einn og sama fundinn. Í því fyrsta var sagt að fundurinn hæfist kl. 9. Í því næsta var sagt að hann hæfist hálfníu. Í því þriðja var sagt að hann mundi ekki standa til 12 heldur til kl. 1. Ég man ekki hver breytingin var í fjórðu skeytasendingunni. Svona er þetta. Það er eins og menn séu bara frá einni mínútu til annarrar að ákveða með hvaða hætti þeir ætli að vinna að framgangi þessa máls.

Stóra málið í þessu er það að við erum bara að fara fram á eitt: Við erum bara að fara fram á það að hér eigi sér stað vönduð vinnubrögð í máli sem skiptir okkur öll miklu. Okkur greinir á en við hljótum að geta sammælst um að kalla eftir vandaðri óháðri úttekt. Það er mikil tortryggni í þessari umræðu. Leiðin til að eyða þeirri tortryggni er sú að afla upplýsinga þannig að við getum tekið efnislega niðurstöðu. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir það vegna þess að það er eins og mönnum finnist að þetta frumvarp þoli ekki dagsljósið.