141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir þau orð sem hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson höfðu um það óþolandi málefni að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, sérstaklega Samfylkingarinnar, hafa ítrekað á liðnum árum, og þau hafa verið í stjórn í ein sex ár, talað gegn íslensku krónunni eins og hún sé ónýt. Þegar seðlabankastjórinn bætist í þann hóp er það algjörlega óboðlegt.

Ég minni í þessu samhengi á að sameiginleg peningastefnunefnd allra flokka og atvinnulífsins komst að þeirri niðurstöðu í nóvember sl. að krónan yrði gjaldmiðill okkar næstu árin. Þegar við erum að tala um næstu árin erum við í það minnsta að tala um tíu ár. Hvað á þá að gera til þess að hún styrkist og eflist og menn öðlist trú á hana? Það á auðvitað að tala með henni en ekki gegn og ekki niður og á svo ósanngjarnan hátt eins og raun ber vitni.

Það eru mörg önnur álíka mál í gangi í samfélaginu sem eru líka mjög mikilvæg og ég fagna þeirri umræðu sem þó kom fram hjá hv. þm. Skúla Helgasyni og hefur heyrst í vaxandi mæli frá stjórnarliðum — betra er seint en aldrei, í lok kjörtímabilsins — að menn séu tilbúnir að fara að taka á verðtryggingunni og þeim skuldavanda sem enn bíður þess að verða leystur til þess að hér verði búandi. Það er fagnaðarefni að menn séu þó tilbúnir til þess.

Forsenda alls þessa er öflug atvinna og þar kemur íslenska krónan sterk inn og möguleikar á að hér verði bæði innlend og erlend fjárfesting. Þess vegna mega forsvarsmenn íslensku þjóðarinnar, hvort sem eru seðlabankastjóri eða ráðherrar, ekki tala gegn krónunni.

Ég ætla, frú forseti, aðeins að vekja athygli á því að í þinginu eru mál er snerta atvinnumál þjóðarinnar, t.d. stjórn fiskveiða. (Forseti hringir.) En hvernig atvinnuveganefnd heldur á því á síðustu dögum þingsins (Forseti hringir.) er algjörlega óboðlegt og efni í mun lengri ræðu sem ég verð að halda seinna, frú forseti.