141. löggjafarþing — 84. fundur,  20. feb. 2013.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

502. mál
[17:05]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Almennt er ég mikill talsmaður nýsköpunar í atvinnulífi og öllu því sem því tengist. Hér er hins vegar, eins og svo oft áður, verið að búa til undanþágur og ívilnanir í skattkerfi sem við búum við hér á landi sem er alveg útbíað í undanþágum og ívilnunum á alla kanta til alls konar hópa og alls konar fólks, fjölskylduaðstæðna, fyrirtækjaaðstæðna. Og enn einn hnúturinn á þeirri flækju bætist nú við. Hversu vel sem manni kann að líka við nýsköpun mun ég ekki styðja fleiri slíkar flækjur heldur leggja það til úr ræðustól enn einu sinni að farið verði í gagngera endurskoðun á öllu skattkerfi íslenska ríkisins með það eitt að leiðarljósi að einfalda það. Það er þörf á því og þörf er á að búa atvinnulífinu einfalt skattkerfi sem íþyngir því ekki um of. Það á að vera markmiðið en ekki endalaust að útdeila brauðmolum til einstakra geira.