141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

lögmæti verðtryggingar á neytendalánum.

[10:49]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður vekur athygli á því hvernig framkvæmdin hefur verið í sambandi við verðtrygginguna og það hefur einmitt verið mikið til umræðu. Ég veit að menn hafa gagnrýnt það hvernig tökin hafa verið á málum sem hafa verið lögð fyrir, og kannski ættum við að fjalla um þetta mál með svipuðum hætti og gert var við gengistryggðu lánin, að skilgreina nákvæmlega hvað það er sem þarf að fá úrskurð um og koma því sameiginlega fyrir dóm þannig að menn fái niðurstöður í þessu máli. Það er náttúrlega gríðarlega mikið undir ef við erum að tala um verðtrygginguna í heild, hvort hún sé lögleg og hvort um er að ræða leiðréttingu langt aftur í tímann.

Það er líka mjög forvitnilegt að sjá hvort að mistök hafi verið gerð ef menn hafa innleitt tilskipanir en ekki haft íbúðalánin undanþegin á sínum tíma. Það er nokkuð sem maður getur haft áhyggjur af. En ég deili því með hv. þingmanni að við þurfum að skoða þetta miklu betur. Við þurfum líka að forðast að tala um patentlausnir, hvort sem um er að ræða verðtryggingu eða ekki verðtryggingu. Ég hef jafnmiklar áhyggjur af því (Forseti hringir.) sem er að gerast í augnablikinu með óverðtryggðu lánin, að þar séum við með tímasprengju inn í framtíðina.